Eru snertiskjáir framtíðin?

Í þættinum Cultureshock á BBC var í gær fjallað um nýjung sem Microsoft kynnir um þessar mundir. Um er að ræða byltingarkennda vinnslu myndrænna gagna og aðgerðir sem voru áður framdar með lyklaborði eða mús.

Gert er ráð fyrir að tölvuskjárinn verði flatur, eins konar borð og geti fólk flutt gögn sín fram og aftur með einni saman snertingunni. Taldi sérfræðingur, sem rætt var við, að brátt heyrðu lyklaborðin sögunni til. Benti hann m.a. á að snertiskjáir yrðu sífellt algengari á tölvum, tónhlöðum, farsímum o.s.frv.

Ekki ber að efa að þessi nýja snertitækni komi að notum á mörgum sviðum og ýti undir sköpunargleði fólks. Þá hljóta listamenn og hönnuðir að fagna þessari þróun.

Sérfræðingurinn benti einnig á aðra þróun sem mun ýta lyklaborðum að mestu út af markaðinum, en það er þróun hugbúnaðar sem gerir fólki kleift að eiga samskipti við tölvur með tali. Slíkur hugbúnaður er löngu kominn á markað fyrir flest menningarmál heims. Hér á landi hefur lítið gerst á þessu sviði undanfarið. Samtök fatlaðra hér á landi virðast ekki hafa burði til þess að ýta undir slíka þróun.

Þá má nefna búnað sem hreyfihamlað fólk getur nýtt sér til þess að stýra tölvum. Þá duga augnhreyfingarnar einar saman og fleira mætti nefna sem uppgötað hefur verið.

Evrópusamtök fatlaðra hafa bent á að snertiskjáir útiloki stóran hóp notenda frá því að geta nýtt sér tæknina. Víða hefur slíkum snertiskjám verið komið fyrir á opinberum stöðum þar sem kynningarefni er framreitt handa gestum. Þeir sem eru sjóndaprir eða með skerta hreyfigetu í höndum geta með engu móti nýtt sér þessa tækni. Fróðlegt verður að vita hvort samtök fatlaðra Bandaríkjamanna bregðist ekki við þessari þróun. Það var fyrir tilstilli bandarísku blindrasamtakanna að Microsoft neyddist til þess að huga a aðgengi fatlaðra að Microsoft-kerfinu.

Þegar Windows 95 kom á markaðinn lýsti ríkisútvarpið stýrikerfinu sem byltingarkenndri lausn. Ég laumaði inn athugasemd til fréttastofunnar um þær afleiðingar sem þessi þróun hefði fyrir blinda tölvunotendur og birti fréttastofan þessa athugasemd. Sannleikurinn var nefnilega sá að tækjaiðnaðurinn, sem hafði myndast um tölvuhjálpartæki blindra, riðaði til falls þegar Windows 95 kom á markaðinn.

Vonandi verður Microsoft á verði núna og fer ekki fram úr sjálfu sér.

Microsoft þverskallaðist ekki lengi við að sinna aðgengismálum. Nú er blint fólk mun betur sett í tölvumálum en áður vegna þeirra möguleika sem Windows býður mönnum. Fleiri atvinnuveitendur þyrftu að vita hvaða byltingu nútímatækni hefur valdið og getur haft í för með sér ef rétt viðhorf eru fyrir hendi. Þá fengi fatlað fólk kannski ekki svör við umsóknum sem hljóða þannig: "Því miður treystum við okkur ekki til að ráða þig ....."


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband