Tveir útvarpsþættir

Ég hef að undanförnu hlustað á þættina gárur í umsjón Silju Báru Ómarsdóttur. Eru þeir um margt vel gerðir og umræðan, sem þar er efnt til, afar athyglisverð og vönduð.

Silja Bára leggur sig fram um að gera ítarlega grein fyrir ýmsum þáttum alþjoðlegra stjórnmála og stöðu Íslands í því samhengi. Sem dæmi má nefna afar athyglisverða umræðu um öryggisráð Sameinuðu þjóðanna og stöðu Íslands og í gærkvöld var endurtekinn þáttur hennar um stöðu kvenna, með eindæmum vandaður umræðuþáttur þar sem vakin var athygli á því réttleysi sem konur þurfa víða að kljást við.

Silja virðist afar vel undirbúin og þekkja það efni sem er til umræðu hverju sinni. Hún fellur þó stundum í þá grifju að spyrja viðmælendur sína fleiri en einnar spurningar í einu og er þá einatt undir hælinn lagt hvaða spurning eða hluti spurningarinnar verður fyrir valinu hjá viðmælandanum.

Í gær var einnig endurtekinn fyrsti þáttur Hauks Ingvarssonar um Jónas Hallgrímsson. Tilkynnt var að þættirnir væru gerðir í samvinnu við Útvarpsleikhúsið og hélt ég að um einhvers konar fléttu yrði að ræða.

Það reyndist og vera. Páll Valsson fjallaði um Jónas og lesið var upp úr ýmsum frásögnum um Jónas auk kvæða hans og Bjarna Thorarensen og bréfs frá Tómasi Sæmundssyni.

Þátturinn var að flestu leyti áheyrilegur. Vart verður sagt að leikararhafi farið þar á kostum.

Sá sem las ljóð Jónasar og Bjarna misþyrmdi þeim með afleitum lestri. Ástar- og saknaðarljóð urðu eins og hlutlaus kvæði eða jafnvel gamankvæði. Nú er oftúlkun verri en engin túlkun. Vegna flutnings ljóðanna læddist sá efi að mér að leikarinn skildi ekki ljóðin.

Sá, sem las bréf Tómasar Sæmundssonar til Jónasar, féll kylliflatur í tímaþolfallsgrifjuna og las dagsetningu bréfsins í nefnifalli í stað þolfalls: tuttuttugasti og fimmti október í stað tuttugasta og fimmta október. Ótrúlega margir virðast ekki lengur þekkja þennan sið a tímasetning sé höfð í þolfalli.

áður en þættinum var útvarpað lauk umsjónarmaður þáttarins Út um græna grundu þættinum á því að greina frá því að um þetta leyti héldu menn upp á 200. ártíð Jónasar. Ártíð er miðuð við dánardag en afmæli við fæðingardag. Jónas karlinn á því 200 ára afmæli 16. nóv nk eða hefði átt það hefði honum enst aldur, eins og sagt er.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband