Dalai Lama og stjórnmálin

Í dag sendi ég vini mínum Þorvaldi Friðrikssyni, fréttamanni, eftirfarandi bréf:

Kæri vinur og félagi.

Mér þótti frétt þín um Dalaílama og Kanadamenn hreint afleit.

1. Harper og reyndar Bush líka tóku á móti Dalaílama sem trúarleiðtoga, EKKI veraldlegum leiðtoga, enda hefur Dalaílama aldrei haldið því fram á síðustu árum að hann sé veraldlegur leiðtogi. Þeir gerðu hvor um sig talsvert úr baráttu hans fyrir mannréttindum og er það vel.

2. Kínversk stjórnvöld hafa frá örófi alda ráðsmennskast með trúarbrögð í landinu. Tang-tímabilið er einna gleggsta dæmið um þetta. Þá voru öll trúarbrögð miðstýrð, ef svo má að orði komast. Nefni ég sem dæmi að söfnuðir Gyðinga og kristinna Aríusarsinna höfðu komið sér fyrir í Xi'an, sem var þá höfuðborg keisaraveldisins. Þeir voru horfnir um 800 og kristnir söfnuðir hurfu að jafnaði skömmu eftir að reynt var að koma þeim á fót.

Þegar Kínverska alþýðulýðveldið var stofnað árið 1949 var talið að um að u.þ.b 700.000 Kínverjar væru kristnir (heimild: BBC 20. okt. 2007). Nú eru þeir taldir á bilinu 16-20 milljónir og hefur fjölgað svo mjög á umliðnum árum að kínverskir fjölmiðlar tala jafnvel um kristniæðið.

http://www.bbcworldservice.com/china

Viðhorf kínverskra kommúnista og indverskra stjórnvald er ærið misjafnt til trúarbragða. Kínverjar hafa löngum lagt á það áherslu að stjórnmál og trúarbrögð fari ekki saman. Þá var eins konar ríkistrú á keisarann á sínum tíma. Þess vegna var eðlilegt að upp sprytti eins konar ríkistrú á Mao formann, enda er Kínverski kommúnistaflokkurinn í raun arftaki gömlu keisaraættanna.

En Þorvaldur minn. Það er merkilegt hvernig sumir fréttamenn daðra við Indverja og kalla þá fjölmennasta lýðræðisríki heims. Þótt það megi vissulega kallast rétt eru framin þar mannréttindabrot sem eru engu miður svívirðileg en það versta sem við fréttum frá Kína.

Dalaí Lama lýsti því yfir í viðtali um daginn og endurtók það í ræðu þegar hann fékk orðuna frá Bush að hann leitaðist ekki við að vera pólitískur leiðtogi og hann sakaði kínversk stjórnvöld um hugleysi þar sem þau þyrðu ekki að horfast í augu við áhrif trúarbragða á samfélagið. Þetta er að mestu satt hjá Dalaí Lama. Nú er hins vegar svo komið að sögn breska ríkisútvarpsins að kínversk stjórnvöld leita leiða til þess að sætta sjónarmið stjórnmála og trúarbragða.

Ef þú kynnir þér sögu Tíbets muntu komast að því að kínverski keisarinn Chen Long sem ríkti á árunum 1714-1760, kom Dalaí Lama á trón sem umboðsmanni kínversku stjórnarinnar í Tíbet. Þannig er nú það. Þeir voru víst báðir búddistar.

Það græðir enginn á að traðka á trúarbrögðum og margir skaðast á því. Þið fréttamenn hljótið að þurfa að flétta annars konar fróðleik inn í fréttir ykkar um Dalaí Lama en andstyggð ykkar á kínverska stjórnarfarinu. Ég er viss um að það skilar betri árangri.

Með vinarkveðju,

Arnþórr


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband