Laxinn á Hótel Hamri

Við hjónakornin brugðum undir okkur betri fætinum og héldum upp í Borgarfjörð í dag. Elín er í vetrarfríi og ákváðum við að gista á Hótel Hamri sem er skammt fyrir utan Borgarnes. Gistihús þetta var byggt fyrir tveimur árum og er allt hið vistlegasta. Hótelstýran er hagmælt og hugsa ég mér gott til glóðarinnar að eiga við hana samskipti og ekki spillir að hún er skólasystir mín úr MR.

Maturinn sem við snæddum í kvöld var einstakur. Steiktur lax með alls kyns meðlæti, besti lax sem ég hef nokkru sinni fengið á veitingahúsi og hef ég þó farið víða.

Á eftir var kaffi og eðalgóður ís í listrænni skál sem smíðuð er í Borgarfirði. Þurfum að skoða betur borgfirskt handverk. Ísinn leit einstaklega vel út. Matreiðslumeistarinn vandaði sig sérstaklega vegna þess að hann hélt að frúin ætti að fá ísinn. Segja menn svo að jafnréttið sé ekki virt!

Ég er með hljóðpelann með mér og vonast til að geta hellt á hann kveðskap og fleira efni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband