Vel heppnað vetrarfrí og hversdagsleikinn

Þá erum við komin aftur heim á tjarnarból eftir einstaklega vel heppnað vetrarorlof.

Á föstudag spókuðum við okkur um í Borgarnesi. Þaðan fórum við og skoðuðum ullarsetrið á Hvanneyri. Þar hitti ég Ásthildi thorsteinsson, fornvinkonu mína, sem ég hafði ekki hitt í rúm 30 ár. Einhvern veginn er það svo að vináttuþráður, sem eitt sinn var spunninn, slitnar ekki svo trauðlega þótt langt líði á milli funda.

Við litum aðeinsvið í Reykholti, fórum þaðan að Deildartunguhver og hljóðrituðum hann. Notaði ég lítinn víðómshljóðnema sem festur er ofan á Nagra Ares-M hljóðpelann.

Um kvöldið borðuðum við kvöldverð ásatm Sigurjóni eyjólfssyni, doktor í guðfræði og konu hans, Martinu Brogmus, en þær Elín kenna saman. Dýrindismatur var á boðstólnum: unaðslegur forréttur (hunangsgljáður silungur minnir mig), saltfiskur soðinn á ítalska vísu (himneskt lostæti) og ís á eftir. Matsveinn Hótels Hamars fær fullt hús stiga.

Laugardagurinn var ekki síðri. Við hjónakornin tókum okkur göngu um nágrenni hótelsins fyrir hádegi og í hádeginu ræddi ég við húsfreyju um hótelhald og kveðskap. Að því búnu héldum við að Reykholti og hlýddum tónleikum Kammerkórs Vesturlands. Honum stýrði Gunnsteinn Ólafsson og undirleikarar voru ýmsir afbragðslistamenn. Einsöng frömdu þeir feðgar, Bergþór Pálsson og Bragi. Þá söng einnig ungur drengur, Daníel Einarsson, sem er um þessarmundir sópran. Flutt voru verkin sálumessa eftir Gabriel Fauré og Missa Creola eftir Ramires. Kórinn var stundum dálítið hikandi í innkomum. Annars voru tónleikarnir öllum flytjendum til hins mesta sóma enda gerðu menn góðan róm að flutningi þeirra og vildu heyra meira.

Það vakti sérstaka athygli mína að kórinn hélt tónhæð vel þótt oft væri sungið án undirleiks annarra hljóðfæra en slagverks. Er það í sjálfu sér afrek sem sumir atvinnukórar geta vart státað af. Hér með eru listamönnunum fluttar þakkir og hamingjuóskir með prýðilegan flutning og áheyrilegan.

Um kvöldið var snætt í þriðja sinn á Hótel Hamri. Í þetta skipti var það humarsúpa, lambakjöt og eftirréttur. Við sigurjón fengum okkur ís en frýrnar eplaköku. Rauðvínið var í boði hússins.

Ég mæli hiklaust með Hótel Hamri við Borgarnes vilji folk njóta góðrar þjónustu og afbragðs eldamennsku á sanngjörnu verði.

Þegar heim kom biðu gluggaumslög og þar á meðal enn ein höfnunin á starfi, í þetta sinn á vegum Háskóla Íslands. Virtist ég í þetta sinn ekki einu sinni hæfur til viðtals hvað þá meira. Það virðist ætla að teygjast úr þessu atvinnuleysi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband