Tveir mætir listamenn

Í dag verður Birgir Andrésson borinn til grafar.

Ég man fyrst eftir honum árið 1958 og síðan hafa leiðir okkar legið saman öðru hverju. Birgir var höfðingi í lund og lifði hratt. Hann var vinmargur og átti sér engan óvildarmann. Mikill er missir föður hans, sonar og sonarsonar, sem hann sýndi okkur svo stoltur í níræðisafmæli Andrésar föður síns í sumar. Fallið er frá mikill afbragðsmaður og góðmenni.

Einhvern veginn þótti mér Ísland hljóðna um stund í gær þegar Broddi Broddason las okkur dánarfregn Guðmundar Jónssonar, óperusöngvara. Guðmundur var söngvari heillar kynslóðar enda hætti hann aldrei að syngja þótt aldurinn færðist yfir. Lengi söng hann við sjómannamessur lofsönginn góða, síðast árið 2005 ef ég man rétt, þá 85 ára að aldri.

Röddin breyttist og aldurinn fór um ana höndum sínum. En fegurð hennar var hin sama.

Fyrst hitti ég Guðmund Jónsson með föður mínum á þjóðhátíð Vestmannaeyja árið 1966, en Guðmundi kynntist ég þegar við tvíburabræðurnir sáum um Eyjapistil á árunum 1973-74. Þá var Guðmundur framkvæmdastjóri Ríkisútvarpsins. Hann var ljúfur í viðskiptum og gamansamur. En þætti honum við menn eða væri misboðið gat hann orðið býsna þungbrýnn og hvassyrtur.

Eitt sinn skarst í odda með mér og auglýsingastjóra ríkisútvarpsins en hún taldi okkur gera ferðum Herjólfs óþarflega góð skil. Tók ég þá ákvörðun að hafa samband við Guðmund og greina honum frá þeirri ákörðun okkar að hér væri um samfélagslega þjónustu að ræða. Brást hann hinn reiðasti við og las mér pistilinn. Sagði hann að við þyrftum að aðskilja betur auglýsingar og þá samfélagsþjónustu sem okkur væri ætlað að inna af hendi og færði nokkur dæmi máli sínu til framdráttar. Sjálfsagt hefur hann haft sitthvað til síns máls, en það fauk í mig. Ákvað ég að gera hlé á viðræðum okkar.

Skömmu eftir þetta fylgdi móðir mín mér niður í útarp og hvern hittum við annan en Guðmund í lyftunni. Bauð hann mér í nefið. Ég afþakkaði.

"Er eitthvað að?" spurði hann. Neitaði ég því. Spurði hann þá hvort ég væri veikur og neitaði ég því líka. "Ertu ástfanginn?" Ég kvað það af og frá. Spurði guðmundur hvað amaði þá að mér. Ég sagðist vera alsæll. "En þú ert alveg hættur að þiggja í nefið hjá mér," sagði hann þá dapur í bragði. Brosti ég þá mínu blíðasta brosi og tók jafnan hressilega í nefið eftir það þegar við hittumst.

Guðmundur hafði þann hátt á þegar leiðir okkar lágu saman að hann ýtti bara að mér dósunum og heilsaði ég jafnan. Stundum sagði hann: "Hérna, elsku drengurinn."

Guðmundur Jónsson var frábær listamaður, skemmtilegur og sérstakur. Hann flutti fleiri einsöngslög en flestir aðrir og söng lög eftir alla sem báðu hann að syngja eftir sig misgóð lög. Ekki ætla ég að fjölyrða um þau mörgu hlutverk sem hann fór með á óperusviði. Þó langar mig að rifja upp tvo listsigra hans, Þór í Þrymskviðu Jóns Ásgeirssonar árið 1974 og gamla manninn í óperunni Silkitrommunni eftir Atla Heimi Sveinsson. Þar held ég að Guðmundur hafi unnið einn af sínum mestu listasigrum. Ætti Ríkisútvarpið að útvarpa þessum tveimur óperum, sem mörkuðu tímamót í íslenskri listasögu.

Blessuð sé minning þeirra beggja, Birgis Andréssonar og Guðmundar Jónssonar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband