Rangar auglýsingar?

Auglýsingar í Ríkisútvarpinu hafa lengi verið í uppáhaldi hjá mér. Ég held upp á þær vegna þess að þær miðla mér ýmsum fróðleik og stundum hef ég álpast til að finna eitthvað sem mig hefur vantað eða ég hef talið að eiginkonuna vanti.

Að undanförnu hefur borið á afar lélegri málkennd hjá auglýsendum eða þeim sem semja auglýsingarnar. Skulu hér tekin örfá dæmi:

Þú færð jólagjöfina fyrir frúna og kúna hjá okkur. Þetta þýðir í munni flestra að einhver fái jólagjöf sem hann ætlar að kaupa fyrir frúna eða kúna og þær ætla síðan að gefa öðrum. Það er eins og forsetningin handa sé að glatast úr málinu. Getur verið að auglýsandinn hafi ætlað að auglýsa jólagjafir handa frú og kú? Sjálft Kaupfélag Borgnesinga stendur að þessari auglýsingu og ég sem hélt í einfeldni minni að bændur væru vörslumenn íslenskrar tungu!

Ný kvikmynd er auglýst með þeim orðum að hún steinliggi.

Ef einhver var laminn í mínu ungdæmi sagði sá sem lamdi iðulega að andstæðingurinn hefði steinlegið. Með öðrum orðum: Myndin er svo léleg að hún steinliggur. Ég vara fólk því við að kaupa hana.

Í vor auglýsti auglýsingadeild Ríkisútvarpsinseftir auglýsingafulltrúa til starfa og var þess óskað að hann hefði góð tök á íslenskri tungu. Ekki virðist hafa heppilega tekist til um val í starfið ef miða á við þær auglýsingar sem sloppið hafa gegnum málvöndun stofnunarinnar. Undirritaður sótti um starfið en var ekki einu sinni virtur svars!

Því segi ég eins og Kloðvík Frakkakonungur þegar hann heyrði páskaguðspjallið: Hefði ég verið þar með lið mitt hefði öðruvísi farið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband