Öryrkjabandalag Íslands

Á föstudaginn sagði formaður Öryrkjabandalags Íslands af sér og framkvæmdastjórinn ákvað einnig að hverfa úr starfi sínu.

Mér skilst á ýmsum stjórnarmönnum að ófriðlegt hafi verið á stjórnarfundum síðustu tvö ár og fyrrum formaður hafi í raun engu fengið áorkað enda stefnan óljós.

Ástæða uppsagnar formannsins er sögð vera ágreiningur um stefnu og hlutverk Hússjóðs Öryrkjabandalagsins. Í kjölfarið hefur m.a. framkvæmdastjóri samtaka, sem eiga aðild að Öryrkjabandalagi Íslands, verið fenginn til þess að níða skóinn af Hússjóði bandalagsins. Er það miður. Eitt atvik er notað til þess að kasta rýrð á störf sjóðsins og starfsfólk hans. Á hitt er ekki minnst að Hússjóður Öryrkjabandalagsins vinnur í nánu samstarfi við sveitarstjórnir víða um land og skortur á vinnuafli á vegum félagsþjónustunnar bitnar einnig á sjóðnum.

Ég harma innilega þá umræðu í fjölmiðlum sem fyrrum formaður reynir að standa fyrir. Greinargerð sú sem hann birti er honum ekki til neins sóma. Þar eru hlutirnir slitnir úr samhengi enda virðist hann skorta heildaryfirsýn yfir málefnin.

Afsögn formannsins er einungis efsti hluti ísjakans. Orsakirnar eru mun dýpri og alvarlegri.

Ég vona af heilum hug að nýr formaður beri gæfu til þess að leita leiða til þess að lækna þau sár sem hlotist hafa í orrahríð undanfarinna ára.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband