35 ár frá upphafi eldgossins á Heimaey

Í dag hvarflar hugurinn 35 ár aftur í tímann. Ég held að ég hafi aldrei skráð hjá mér ýmislegt sem snerti aðdraganda eldgossins á Heimaey og það sem á eftir fór.

Einn af mínum nánustu vinum í Vestmannaeyjum hét Jón Ó. E. Jónsson, járnsmiður sem vann í vélsmiðjunni Magna. Jón var athugull maður og skynsamur. Hann grúskaði í mörgu og ég lánaði honum gjarnan námsbækur mínar í menntaskóla, þær sem voru á íslensku.

Skömmu fyrir jólin 1972 kom Jón í heimsókn en ég var þá nýkominn í jólafrí. Sagði hann mér frá því að eitthvað væri á seiði við syðri hafnargarðinn í Vestmannaeyjum. Þar væri greinilega að opnast sprunga. Annaðhvort væri þetta jarðgliðnun eins og hann orðaði það eða þarna væri að opnast berggangur. Sagðist hann hafa fylgst með sprungumyndun þessari að undanförnu. Taldi hann lítið þýða að ræða þetta við fólk.

Daginn áður en gosið hófst var stórviðri af suðaustri og í Reykjavík var úrhelli. Við Renata Kristjánsdóttir lásum saman sögu í háskólanum og kom hún til mín snemma morguns eins og hundur af sundi dregin. Sátum við framundir kvöldmat við lestur og fór hún þá til síns heima.

Um tíuleytið um kvöldið hringdi hún og bað mig að færa sér bók sem hún hafði gleymt. Renata ætlaði að lesa undir próf um nóttina en við áttum að mæta í prófið morguninn eftir. Fórum við tvíburarnir með bókina til Renötu. Hún hafði þá lagað ofursterkt kaffi til þess að halda sér vakandi og fengum við bolla af því. Fyrir vikið gat ég ekki með nokkru móti sofnað þegar heim kom en fór að sinna ýmsu sem snerti háskólanám mitt. Afritaði ég m.a. einhver segulbönd og hafði heyrnartól á eyrunum.

Þegar klukkuna vantaði u.þ.b. 15 mínútur í 2 um nóttina heyrði ég að síminn hringdi og umferð frammi. Þegar ég kom fram var systir mín grátandi og Gísli að tala við bróður okkar Pál. Rétti hann mér símann og Páll sagði að farið væri að gjósa í Vestmannaeyjum. Lýsti hann gosinu af sinni alkunnu snilld og fór með símann út til þess að lofa okkur að heyra gauraganginn.

Hann hringdi nokkrum mínútum síðar og sagðist þá hafa farið akandi suður fyrir Helgafell. Þá sá hann sprunguna koma æðandi á móti sér og taldi sig mega þakka sínum sæla fyrir að hafa sloppið frá þessu.

Ég lagði til að við systkinin færum ekki að sofa heldur yrði hitað súkkulaði og beðið átekta. Hringdi ég í nánustu vini og ættingja og greindi þeim frá því hvernig komið væri. Sögðust flestir trúa mér og reyndar okkur vegna þess hversu róleg við vorum.

Það vakti athygli okkar að útvarpsstöðin var sett í gang en ekki var farið að útvarpa. Hér ætla ég ekki að skrifa um afskipti okkar af þessum málum annað en að gísli hafði samband við Ríkisútvarpið og náði tali af Pétri Péturssyni. Hann sagði að þeir tæknimaðurinn hefðu verið boðaðir upp í útvarp en hefðu í raun ekki hugmynd um hvað væri á seiði. Greindi gísli honum frá því að gos væri hafið.

Það var athyglisvert að þegar fyrstu tilkynningarnar komu frá almannavörnum um kl. 4 um nóttina voru flestir Vestmannaeyingar farnir áleiðis til Þorlákshafnar.

Um kl. 4:30 um nóttina kom Helgi Pálmarsson, vinur okkar, með lykla að íbúð sem hann átti og afhenti okkur handa fólki sem á þyrfti að halda. Svona var samhugur Íslendinga.

Ættingjar okkar, Bryndís karlsdóttir, mágkona okkar og börn hennar ásamt móður okkar, Guðrúnu Stefánsdóttur, komu til okkar um kl. hálf átta um morguninn ásamt heimilishundi Páls og Bryndísar, Billý. Renata kom um 8-leytið að sækja mig í prófið. Hafði hún orðið þess áskynja hvað um var að vera en ákvað að hafa ekki orð á því í þeirri von að ég vissi lítið um þetta. Henni mætti fullt hús af fólki og við ´fórum í prófið.

Það var dálítið óþægilegt að þeir sem sátu yfir í prófinu komu inn til mín til þess að segja mér hvað væri að gerast og bað ég þá loks að hætta því. Eftir að prófinu lauk sat ég um stund og hugleiddi hag okkar.

Ekki skal fjölyrt meira um þetta að sinni. En þriðjudaginn 6. febrúar vorum við bræður skikkaðir til þess að taka að okkur umsjón Eyjapistils fyrir Ríkisútvarpið undir stjórn og leiðsögn Stefáns Jónssonar, fréttamanns. Hefur Ríkisútvarpið verið minn annar starfsvettvangur síðan. Vissulega kom þetta eins og himnasending og gerði okkur auðveldara að fleyta okkur yfir fjárhagslega örðugleika.

Enn er Ríkisútvarpið athvarf mitt bæði til fræðslu, skemmtunar og að nokkru leyti fæ ég þar svalað sköpunargleði minni og athafnaþrá. Hefur svo verið frá því að ég var sviptur atvinnu fyrir rúmum tveimur árum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband