Hugleiðingar um síðustu staksteina

Ég les iðulega staksteina Morgunblaðsins. Þar er stundum varpað fram athyglisverðum spurningum og hárbeittum athugasemdum. Höfundurinn hefur víðtæka þekkingu á íslenskum stjórnmálum, er langminnugur á margt og þekkir ótalmarga. Óhætt er að segja að hann eigi kunningja eða vini í öllum stjórnmálaflokkum og sé mikils virtur víða.

Í dag vekur hann athygli á vaxandi fylgi Samfylkingar á kostnað Sjálfstæðisflokks og segir, sem vafalítið er rétt, að nú sjáist afleiðingar þess að Sjálfstæðisflokkurinn hleypti Samfylkingunni með sér í ríkisstjórn.

Um það leyti sem kosið var til sveitarstjórna vorið 2006 var forysta Sjálfstæðisflokksins á þeim buxunum að drepa formann Samfylkingarinnar af sér. Tækist að halda flokknum utan ríkisstjórnar sæi Ingibjörg Sólrún sína sæng væntanlega útbreidda.

Til þessarar stefnu má hiklaust rekja ófarir Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn að undanförnu. Það var algerlega ábyrgðarlaust af Vilhjálmi og félögum að byrja á að semja við Ólaf F. og taka síðan Björn Inga upp í til sín.

Ef grannt var hlustað á málflutning Gísla Marteins Baldurssonar, formanns umhverfisráðs borgarinnar í gær mátti heyra að brestir eru í núverandi borgarstjórnarsamstarfi. Flugvöllurinn er sem tifandi tímasprengja og almenn óánægja er með kaupin á húsunum við Laugarveg. Telja margir að betur hefði mátt standa að deiliskipulagi á reitnum og koma þannig í veg fyrir þennan fjáraustur. Fleiri atriði mætti einnig nefna.

Það er greinilegt að yngra fólkið í borgarstjórnarmeirihlutanum skilur hvaðan á það stendur veðrið en það virðist skorta afl og eða stuðning innan flokksins til að hrinda okinu af sér.

Þeirri hugmynd hefur verið varpað fram að eðlilegt væri að Sjálfstæðisflokkurinn leitaði nú eftir samstarfi við Samfylkinguna um stjórn borgarmála. Getur verið að þannig takist flokknum að koma í veg fyrir að hann dæmi sjálfan sig úr leik í næstu kosningum? Spyr sá semekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband