Sumir segja að svokallað flokkseigendafélag Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi vegi nú að stjórnsýslu og lýðræði innan bæjarins.

Í dag barst í póstkassa Seltirninga bæklingur sem fjallar um hugmyndir sem settar hafa verið fram um landfyllingu norðan Eiðistorgs, en þar hefur Hagkaupskeðjan hug á að reisa verslunarmiðstöð.

Hugmyndin er sú að Bónus og Hagkaup hafi þar aðstöðu í verslunarmiðstöð sem byggð verði á landfyllingunni. Þar með losnaði húsnæði það sem Hagkaup hafa á Eiðistorgi og til yrði fyrsta flokks rými undir stjórnsýslu Seltjarnarness. Væri það sennilega skynsamlegur kostur til þess að lífga torgið við.

Bónusverslunin verður að víkja af Hrólfskálamelnum innan skamms og þá verður skarð fyrir skildi hjá ýmsum sem hafa notið góðs af lágu vöruverði. Með verslunarmiðstöðinni á landfyllingunni yrði ekki einungis Seltirningum séð fyrir lágvöruverslun heldur miklumhluta vesturbæjar Reykjavíkur. Ef rétt verður á málum haldið getur slík verslunarmiðstöð ýtt undir aðra þjónustu í bænum og þannig orðið þó nokkur margfeldisáhrif. Þá skilst mér að gert sé ráð fyrir hjólreiða- og göngustígum á landfyllingunni svo að ekki þyrfti að eyðileggja þá góðu aðstöðu sem nú er meðfram ströndinni.

Þegar þessi bæklingur er skoðaður er hann merktur nafnlausum hópi áhugamanna um byggð á Seltjarnarnesi. Enginn er þar nafngreindur.

Það er í meira lagi skrítið að áhugafólk skuli fara þannig að. Forystumenn virðast ekki ljá nafn sitt á plaggið heldur virðist hér um einhvern hulduher að ræða. Fróðir menn hafa þó tjáð mér að hér séu nokkrir áhugasamir sjálfstæðismenn á ferðinni og nefndu heimildammenn mínir þá Flokkseigendafélagið, hvað sem það þýðir nú.

Fremur finnast mér vinnubrögð þessara Sjálfstæðismanna óviðkunnanleg. Ég geri ráð fyrir að mál þetta sé nú í athugun innan skipulagsnefndar bæjarins og ef að líkum lætur verður það sett í grenndarkynningu. Væntanlega þarf það einnig að fara í umhverfismat og þá hefði væntanlega fengist vitrænni umræða um það en með litprentuðum bæklingi nafnlauss hulduhers sem vill engu breyta á Seltjarnarnesi.

Hefði ekki verið eðlilegra að bíða þess að eðlileg grenndarkynning færi fram í stað þess að reyna að fyrra bragði að hafa áhrif á skoðanir Seltirninga með þessum hætti?

Nú veit ég ekki nákvæmlega hverjir eru í þessum hópi. Nefndir hafa verið við mig líklegir einstaklingar, en ég læt nöfnin liggja milli hluta. Af einhverjum ástæðum virðast þeir hafa undir höndum gögn sem skipulagsnefnd vinnur með.

Með þessum hætti er í raun vegið að eðlilegu lýðræði og stjórnsýslu í bænum. Bæklingur er gefinn út sem hlýtur að kosta nokkurt fjármagn. Ætla má því að einhverjir fjármagnseigendur, sem eiga einhverra hagsmuna að gæta, standi þarna að verki.

Ýmsar hugmyndir voru ræddar um verslunarmiðstöðvar á Seltjarnarnesi og umferð hingað á nesið á meðan ég sótti bæjarstjórnarfundi. Menn voru sammála um að umverðin um Nesveginn vegna Eiðistorgsins væri óeðlilega mikil og Nesvegurinn bæri hana trauðla. Verði landfyllingin byggð norðan við Eiðistorg og verslunin flutt þangað beinist umferðin einnig norður af byggðinni og léttir á Nesveginum sem er fyrst og fremst íbúðagata. Þess vegna hljóta menn að skoða þessar hugmyndir með jákvæðu hugarfari og leggja fram skynsamlegar tillögur um breytingar ef breyta þarf.

En að lokum: Sjón verður sjálfsagt sögu ríkari. Það er enginn fúsari að viðurkenna en undirritaður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Takk fyrir pistilinn Arnþór. Hann getur opnað ýmsar hliðar umræðunnar um landfyllingar við Seltjarnarnes.Sumt er svolítið fljótandi í pistlinum. Ég get sagt að skipulagsnefnd hefur ekki fengið nein gögn frá aðilum sem þeir hafa ekki kynnt sjálfir í Mbl.Umsögnin um aðgerðir flokkseigendafélags Sjálfstæðisflokksins er afar hæpi. Sá félagsskapur beitir sér með öðrum hætti.Eins og svo oft áður kemur frumkvæði að mótbárum í svona máli frá íbúum sem fyrstir átta sig á áhrifum þess sem gera skal.Skipulagsnefnd og bæjarstjórn er nokkur vorkunn í þessum málum þar sem heimavinnan varðandi miðsvæði var aldrei unnin þrátt fyrir áeggjan Neslistans, Áhugahóps um betri byggð og gott ef ekki Rýnihópsins um skipulag á hrólfsskálamel og fl.Einnig hafa aðilar svarið af sér allar landfyllingar við Seltjarnarnes. Þessi ósk Þyrpingar um að fá að búa til land er að mínu mati engan veginn hægt að svara játandi nú.Til þess eru engar forsendur.Málið er þannig vaxið og óunnið.
Ef til kastanna kemur snýst málið nr. eitt um vilja Seltirninga og í öðru lagi um fagleg vinnubrögð og samráð bæjarins við íbúa, fagfólk og áhugasama aðila um uppbyggingu miðbæjar.

Með vinsemd og virðingu.

Stefán Bergmann

Stefán Bergmann

Stefán Bergmann (IP-tala skráð) 12.10.2006 kl. 21:12

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband