Nýja OECD-skýrslan

Þá er enn ein skýrsla OECD um íslenskt efnahagslíf komin út. Hver skyldi hafa samið hana?

Ég minnist þess að á 7. áratugnum sagði Helgi Benediktsson, faðir minn, að sjálfsagt hefði Jónas Haralz samið skýrslurnar sem þá birtust enda var efni þeirra iðulega í samræmi við stefnu viðreisnarstjórnarinnar. Og hvað stendur nú í þessari nýjustu skýrslu?

Heilbrigðiskerfið er of dýrt og þörf á samkeppni og einkavæðingu. Er þetta ekki eins og talað út úr munni margra sjálfstæðismanna? Hvenær hefur samkeppni orðið til á íslenskum heilbrigðismarkaði? Hefur einkavæðingin ekki fremur leitt til mismunar en jöfnuðar á þessu sviði? Heldur Guðlaugur Þór að hann nái betri og hagkvæmari rekstri á öldrunardeild Landakotsspítala með því að einkavæða reksturinn? Er hann tilbúinn að greiða einkafyrirtæki hærra verð fyrir betri þjónustu? Gæti ekki verið að þjónustan batnaði ef hann hækkaði laun þeirra sem annast sjúklingana?

Selja ber Landsvirkjun. Hvað um auðlindirnar? Veit ekki OECD að einkavæðing orkufyrirtækja hefur leitt til hækkandi orkuverðs til almennings í Bretlandi og Bandaríkjum Norður-Ameríku?

Fara ber varlega í frekari stóriðjuuppbyggingu. Þetta hefur Davíð Oddsson sagt því að hann vill hamla gegn þenslunni í íslensku efnahagslífi. Þarna erum við Davíð sammála.

Hávaxtastefna seðlabankans er rétt og hækka hefði átt vextina fyrr vegna verðbólgunnar. Sem sagt: Íslendingar eiga að greiða okurvexti sem hækka verð aðkeyptra og framleiddra afurða og rýra kaupgetu almennings.

Hver skyldi nú hafa samið þessa skýrslu? Spyr sá sem ekki veit.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sóley Björk Stefánsdóttir

Sæll Arnþór

Láttu okkur endilega vita ef þú færð svar við þessari góðu spurningu.

Sóley Björk Stefánsdóttir, 29.2.2008 kl. 07:17

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband