Viðtengingarháttur, Dauðinn og mörgæsin

Í dag lýkur Gunnar I. Gunnsteinsson við að lesa söguna Dauðann og mörgæsina eftir Andrej Kúrkov í Ríkisútvarpið. Þýðing Ernu Ragnarsdóttur er allgóð og lesturinn í raun líka. Þó skortir herslumuninn á að hann teljist betri en góður.

Svo undarlega vill til að lesarinn virðist ekki hafa vald á viðtengingarhætti íslenskrar tungu. Dæmi:

Það var eins og hann hafði náð sér eftir langvinnan sjúkdóm.

Þá er nafn landsins Úkraínu ævinlega borið fram sem Úkranía. Stendur það e.t.v. í prentuðu útgáfunni? Ég trúi því tæplega.

Ég hef að undanförnu velt því fyrir mér vegna ýmissa dæma hvort eitthvað skorti á málfarslegt uppeldi nemenda í leiklistardeild Listaháskóla Íslands. Það er svo margt sem bendir til þess að fákunnátta um einföldustu atriði og almenn atriði evrópskrar menningar fari þverrandi og bitni á framsögn og lestri leikaranna. Stutt er síðan ágæt ævisaga var hreinlega eyðilögð með lestri ágæts leikara og útvarpsmanns af slíkum sökum.

Nú greiðir Ríkisútvarpið sæmilega vel fyrir upplestur útvarpssagna. Það ætti því að sjá til þess að betur væri vandað til verka.

Ég minntist um daginn á lestur Þórunnar Erlu- og Valdimarsdóttur á sögu sinni hér á þessum síðum. Sá lestur bar af eins og gull af eiri þegar hann er borinn saman við annað efni sem lesið hefur verið í útvarp að undanförnu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband