Þáttur um þögnina og nýtt útvarpsleikrit, Besti vinur hundsins

Áðan hlustaði ég á afbragðs útvarpsþátt um þögnina, sem Guðni Tómasson gerði um sýningu sem staðið hefur í Listasafni Reykjavíkur. Varpaði Guðni ljósi á margs konar samhengi þagnar og hljóðs. Þátturinn var prýðilega vel gerður og hélt óskiptri athygli minni.

Þá hlýddi ég á Útvarpsleikhúsið flytja fyrsta þátt þríleiksins Besti vinur Hundsins eftir Bjarna Jónsson og nefndist hann lykillinn. Hljóðritunin var mjög góð og yfirleitt býsna sannfærandi. Hið sama á við um persónusköpunina.

Bjarni er þaulreyndur höfundur útvarpsleikrita og leikgerða og hefur nýlega verið tilnefndur til norrænu leiklistarverðalunanna, að vísu fyrir leikritið Óhappið sem hefur greinilega fallið dómnefdinni betur í geð en mér. Hann er hugmyndaríkur og fái hann verðlauninn verður Bjarni vel að þeim kominn.

Eitt af því sem mér þótti fara úrskeiðis í hljóðrituninni voru atriðin sem gerast í bílum. Þar var bílstjóri ævinlega í hægri rás en farþeginn til vinstri. Það er eins og hlustandinn horfi inn í bílinn að framan en sé ekki staddur inni í hljóðmyndinni. Þetta truflar migdálítið og finnst mér eins og ég sé í bíl sem ætlaður er fyrir vinstri umferð. Í slíkum bílum hef ég ekki setið lengi í öðrum löndum en Bretlandi.

Mér finnst Bjarni Jónsson yfirleitt skrifa fremur lipurlegan texta. Ég harma þó virðingarleysi hans fyrir viðtengingarhættinum. Vonandi bætir þetta góða leikskáld úr þessu. Þótt kunnátta almennings í notkun viðtengingarháttarins fari þverrandi er ástæðulaust fyrir leikskáld að láta undan síga.

Ég hlakka til næstu þátta þríleiks Bjarna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband