Brottnámið úr kvennabúrinu, frábær sýning

Á föstudaginn fórum við hjónin ásamt mági mínum í óperuna að sjá Brottnámið úr kvennabúrinu. Þegar ég var í mentaskóla hafði ég einhverja fordóma gegn Mozart, fannst hann eiginlega hálfgert dægurtónskáld. Þetta var afar heimskulega hugsað því að meintar dægurperlur hafa flestar staðist tímans tönn og eru enn á meðal þess vinsælasta sem samið hefur verið af tónlist frá upphafi vega.

Renata Kristjánsdóttir, sem stundaði nám í sögu við Háskóla Íslands um leið og ég, kom mér í skilning um að Mozart væri hið merkasta tónskáld og fékk mig til þess að endurskoða afstöðu mína til hans. Fór svo að ég fékk mætur á ýmsum verkum þessa mæta tónskálds þótt ég viðurkenni að mér finnist sumt í verkum hans dálítið klisjukennt. En öll tónskáld koma sér upp vissum klisjum eða frösum og er það sjálfsagt eðli tónsköpunarinnar.

Við komum í óperuna um 7-leytið á föstudagskvöld og settumst að hlýða á kynningu Árna Heimis Ingólfssonar, einstaklega vel gerða og skemmtilega og varð hún til þess að við nutum óperunnar í mun ríkara mæli en verið hefði. Ég hef að vísu heyrt áður fjallað um tyrknesk áhrif í Brottnáminu, en Árni Heimir útskýrði þau betur en ég hef áður heyrt. Ekki er einungis um áhrif frá tyrkneskum trymblum að ræða heldur bera einstakar laglínur þess merki að Mozart hafi þekkt nokkuð til tyrkneskrar tónlistar. Að vísu þótti ekki góð latína að herma um of eftir tyrkneskri tónlist einkum egna þess að tónstigar þeir sem algengastiir oru á meðal tyrkja þóttu minna um of á villutrú.

En í stuttu máli sagt stóðu einsöngvarar, hljómsveit, kór, leikarar og aðrir, sem að sýningunni komu, sig með ágætum. Flutningurinn var prýðilegur og áferðin öll hin besta. Ekki verður gert hér upp á milli einstaklinga í sýningunni. Þeir mynduðu allir órofaheild og ekki spillti hinn skemmtilegi hljómur Gamlabíós.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband