Ég stjórnar hér og ræður

Skömmu eftir miðnætti í gærkvöld hringdi Árni, sonur Elínar minnar og tilkynnti að senn þyrfti Elfa Hrönn að fara á fæðingardeildina því að hríðir væru byrjaðar. Elín amma dreif sig þegar af stað suður í Hafnarfjörð, en hún hafði tekið að sér að annast Birgi Þór, þriggja ára, sem senn yrði stóri bróðir.

Rétt eftir kl. hálf fimm í morgun fæddist síðan rúmlega 16 marka og 54 cm langur drengur, vel skapaður og fagurlimaður. Við Elín náðum í Birgi Þór í leikskólann seinnipartinn í dag og heimsóttum foreldrana og litla bróður á fæðingardeildina. Birgir stóri bróðir var afar hrifinn og hreykinn af stöðu sinni og fannst mikið til um bróður sinn. Það er hátíðleg stund að sitja við fæðingarbeð barns, heyra það amra örlítið og finna það í fangi sér, ylinn og ilminn af því, skynja hamingju foreldranna og njóta þess sjálfur að enn einu sinni færi skaparinn okkur eitt blessaða barnið.

Birgir Þór kom svo heim með okkur í fóstur og að hjálpa ömmu sinni að elda þorsk. Þau Elín fóru frekar snemma í háttinn og auðvitað í náttföt. Sá stutti sagði: Afi, farðu í náttfötin. Afi var ekki alveg reiðubúinn til þess og þá sagði sá stutti: Ég stjórnar hér og ræður.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Árni Birgisson

Sæll Arnþór.

Ég setti inn myndir af drengnum á bloggsíðu mína, sem ég að öðru leiti er hættur að sinna.

bestu kveðjur frá stoltum föður

Árni Birgisson, 16.4.2008 kl. 12:19

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband