Umönnun aldraðra og öryrkja og ríkjandi viðhorf

Í gær var greint frá því að boðuðu setuverkfalli starfsfólks á heimilum aldraðra hefði verið frestað og væru nú hafnar samningaviðræður á miloli fyrirtækja í öldrunarþjónustu og Eflingar.

Það er sannast sagna að kjör almennra starfsmanna á elliheimilum hafa verið með ólíkindum og í engu samræmi við eftirspurn. Vitað er að þörf fyrir hjúkrun aldraðra fer vaxandi á næstu árum og því hlýtur að skapast eftirspurn eftir hæfu starfsfólki til þess að sinna þessum störfum. Samkvæmt röksemdum einkavæðingarsinna og þeirra sem aðhyllast óhefta markaðsvæðingu er rétt að eftirspurn ráði sem mestu um kaup og kjör. Sumar stéttir hafa haft betra lag á því en aðrar að gera sig svo mikilvægar í þjóðfélaginu að ekkert stenst kaupkröfur þeirra. Má þar m.a. nefna kerfisfræðinga. Af þeim er orðið ærið nóg í íslensku samfélagi, en aukið framboð þeirra virðist lítil áhrif hafa á verðlagningu þjónustunnar.

Þau viðhorf, sem ríkjandi eru í garð þeirra sem annast aldraða, hafa einnig verið ríkjandi í garð þeirra sem vinna að málefnum fatlaðra. Þannig er nú iðulega auglýst eftir aðstoðarfólki á sambýli og til liðveislu án þess að séð verði að auglýsingarnar beri tilætlaðan árangur.

Í því samfélagi, sem óðum hefur þróast á Vesturlöndum undanfarna áratugi og tekur mið af þjónustu, hljótum við að hugsa okkar gang og spyrja hvert við viljum stefna. Er lengur hægt að neita því að þeim, sem annast foreldra okkar vegna þess að einyrkjasamfélag nútímans veitir okkur ekki aðstöðu til þess, beri mannsæmandi laun fyrir störf sín? Enginn ráðamaður vill taka ábyrgð á þessu nema þá helst Siv, sem sýnir einhverja tilburði. Forsætisráðherra segir: Ekki Ég. Fjármálaráðherra segir: Ekki ég.

Vonandi verður samið um launahækkun handa ófaglærðu starfsfólki á elliheimilum og reynt að búa svo um hnútana að það geti bætt kjör sín með sértækri menntun á því sviði sem það starfar við.

Gleðilega páskahátíð öllum þeim sem lesa þennan pistil


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband