Bjarbvætturinn Birgir Finnsson

Ég hef getið þess áður á þessum síðum að ég sé í alþjóðlegum þróunarhópi Dolphin Access Computers, en fyrirtækið þróar hugbúnað handa blindu og sjónskertu fólki. Okkur berast í hverri viku eða nær vikulega nýjar tilraunaútgáfur skjálesarans Supernova sem okkur ber að prófa með ýmsum hætti.

Í gær kom nýjasta tilraunaútgáfan af Supernova 9,2 og setti ég hana upp. Ég ákvað að láta hana skrifa yfir fyrri útgáfu og vonaði að hún væri svo vel heppnuð að ég gæti notað hana án þess að hafa útgáfu 9,01 uppi við. En Adam var ekki lengi í Paradís.

Þegar til kom voru nokkrir hnökrar á útgáfunni sem ég þurfti að prófa rækilega. Má þar m.a. nefna að ekki tókst að fara á milli atriða í Moggablogginu með tab-lyklinum.

Þá hvarf talgervillinn sem er í Utility Manager sem fylgir með Windows XP. Það var slæmt því að ég þarf stundum að slökkva á blindrahugbúnaðinum, einkum ef ég nota fartölvuna til þess að hljóðrita og hef USB-hljóðkort tengt. Einnig nýtist þessi talgervill ef þarf að skipta um skjálesara.

Ég ákvað að ef til vill væri einfaldast að endurheimta þennan talgervil, sem talar eins og amerísk fyllibytta, með því að færa tölvustillingarnar fram um eina viku. Þá fyrst fór allt í vitleysu.

Supernova ræsti sig ekki upp eins og ég bjóst við. Það var þó enn verra að mér tókst ekki að hreinsa hugbúnaðinn allan út úr vélinni og varð að fá frænda minn, Birgi Finnsson, í heimsókn með ofurútþurrkunarforrit til þess að annast þetta.

Okkur tókst að setja upp skjálesarann og talgervilinn en rekillinn sem stjórnar aðgangi forritsins að talgervlum afritaðist ekki. Fangaráðið var því að setja upp tilraunaútgáfu að nýju og þá fylgdi aðgangsforritið með.

Þannig endaði þessi skemmtilegi dagur sem fór annars í að ganga í Heiðmörkinni með minni góðu eiginkonu, fara á umhverfissýninguna í Perlunni og synda síðan í sundlaug Seltirninga.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband