Styrmir hætti í gær

Í gær hóf ég að nýju störf sem sumarblaðamaður hjá Morgunblaðinu. Mér mætti hlýlegt viðmót samstarfsmanna sem ánægjulegt var að hitta á ný.

Ég fékk sömu tölvu og í fyrra og þar var enn fyrir hendi íslenskur talgervill svo að ekki þurfti að hafa áhyggjur af því máli.

Þegar uppsetningu skjálesara var lokið var haldið í matsal Morgunblaðsins þar sem Styrmir Gunnarsson, ritstjóri, lét af störfum og afhenti Ólafi Þ. Stephensen ritstjórn Morgunblaðsins.

Styrmir flutti snjalla ræðu þar sem hann fór í stórum dráttum yfir feril sinn sem ritstjóra. Hann gerði upp af hreinskilni feril sinn og skoðanir.

Eftir að þeir Styrmir og Matthías losuðu Morgunblaðið undan flokksviðjum má segja að grundvöllurinn undir pólitískum daglböðum á Íslandi hafi brostið. Umræðan á síðum blaðanna hefur gerbreyst og er nú þannig að vart vill nokkur kalla yfir sig fyrri tíma.

Flestir hljóta að vera sammála um að í gær hafi orðið kaflaskil í íslenskri fjölmiðlun. Það er ánægjulegt að fá að takast á við þær áskoranir sem bíða blaðamanna undir stjórn nýs ritstjóra. En um leið vil ég þakka Styrmi fyrir ánægjulegt og gefandi samstarf og fyrir þann mikla stuðning semhann veitti samtökum eins og Öryrkjabandalagi Íslands á örlagatímum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband