Daglegt amstur og sumarið

Ég hef tvisvar fundið angan af ilmreyr í sumar. Í fyrrakvöld brugðum við hjónin okkur upp á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi og önduðum að okkur þessum unaðslega ilmi. Enn fórum við á stúfana í kvöld með sænskri vinkonu okkar og héldum út í Elliðaárhólma. Þar var einnig ilmur af reyrgresi. Heldur fundust mér köld 11 stigin sem mælirinn sýndi.

Í vinnunni var annasamt í dag. Ég kom saman viðtali, en heldur fannst mér textinn óþjáll. Lít betur á þetta á morgun.

Ég á ævinlega í nokkrum vandræðum með CCI-kerfið. Í dag tókst mér að búa til snið fyrir grein en fann það síðan ekki aftur. Það var þó í kerfinu og það tókst að opna það svo að ég gat límt textann inn.

Það er ákaflega skemmtilegt að vinna í ritvinnslukerfi Morgunblaðsins og sjá hvernig greinarnar verða til. Flestar aðgerðir er hægt að fremja með lyklaborðinu. Það veldur mér einna mestum erfiðleikum að skjálesarinn er ekki með sérstakar stýriskrár fyrir gagnagrunn kerfisins, en ég hef fundið nokkrar skrár sem verka allvel. Nú verður senn kynnt svokallað skriftamál fyrir dolphin-hugbúnaðinn og það ætti að auðvelda margt.

Ég hef orðið var við stóraukna umferð um bloggsíðurnar hjá mér. Það vekur bæði undrun og gleði. Jafnframt er það viss áskorun á að halda áfram þessu kvöldspjalli um allt og ekki neitt en stundum um hitt og þetta.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband