Hrafnistukórinn og víkingar í Hafnarfirði

Í gærmorgun fórum við suður í Hafnarfjörð að hljóðrita Hrafnistukórinn. Í honum eru um 20 heimilismenn á Hrafnistu. Stjórnar Böðvar Magnússon þeim og leikur undir á harmoniku.

Elín er einstaklega nösk á að koma hljóðnema fyrir þannig að hann fangi viðfangsefnið eins og best verður á kosið. Sparar hún mér oft tíma og fyrirhöfn og tryggir um leið betri árangur. Hún hefur reyndar mjög næmt auga fyrir viðfangsefni ljósmyndarans og skynjar því vel afstöðu linsunnar og hljóðnemans.

Kórinn söng rúmlega 20 lög sem verða væntanlega gefin út á geisladiski þegar fram líða stundir. Ætli það verði ekki metsöludiskurinn í haust?

Á meðan ég hljóðritaði fór Elín ásamt bróður sínum og sótti Birgi litla Þór. Síðan var haldið í hádegismat sem var í boði Hrafnistu.

Að því búnu slóst tengdamóðir mín í för með okkur og héldum við á víkingahátíðina. Þar var margt á seiði. Ýmiss konar handverk var sýnt og fannst mér mikið til um þungar keðjur úr silfri sem voru notaðar sem skraut við fornlega víkingabúninga.

Stemmningin var mjög alþjóðleg. Þarna var dansaður magadans og maður nokkur, sem mælti á norsku, kyrjaði eins og tíbetskur munkur. Hann náði ótrúlega djúpum tónum. Barðar voru bumbur og barkasöngvari var þarna prýðilegur.

Ég fékk leyfi til að hljóðrita sýnishorn af því sem þarna var í boði. Nokkurn tíma tók að sækja búnaðinn og tengja. Því miður missti ég af barkasöngnum og tóninu. En ágæta hljóðmynd fékk ég af umhverfi og andrúmslofti hátíðarinnar.

Það er ef til vill dálítil fordild að ganga um með Nagra Ares BB+ og stóran víðómshljóðnema í stað þess að vera með minna tæki eða einn einómsnema. En hljóðgæðin eru vart sambærileg.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband