Fréttaauki

Í dag hringdi Árni Johnsen til mín og spurði hvort ég hefði heyrt lagið Fréttauka við ljóð Ása í Bæ, en Árni hefur nýlega gefið lagið út á hljómdiski. Sagði ég sem satt er að ég hefði ekki heyrt lagið í hans flutningi.

Eftir að við Árni lukum samtalinu ákvað ég að forvitnast á netinu um það hvort ég fyndi eitthvað um ljóðið. Á síðu nokkurri, þar sem fjallað er um nokkur, meint þjóðhátíðarlög Vestmannaeyja, er ljóð Ása birt með þeim orðum að það hefði hlotið þann heiður að verða bannað í ríkisútvarpinu. Hér er um mikinn misskilning að ræða og þykir mér því rétt að segja sköpunarsögu lagsins:

Haustið 1966 kom Helgi Hermannsson, söngvari hljómsveitarinnar Loga í Vestmannaeyjum, að máli við mig og spurði hvort ég vildi semja handa hljómsveitinni lag, en Logar hugðust gefa út hljómplötu þá um sumarið. Einn þeirra hafði samið nokkur, ágæt danslög og hafa þau vafalítið átt að prýða hljómplötuna. Var ákveðið að ég tæki þetta að mér og Ási í Bæ, þjóðskáld Vestmannaeyinga, yrði fenginn til að semja textann.

Mér þótti óumræðilega vænt um að hafa verið beðinn þessarar bónar og hófst þegar handa við að móta stef í huga mér. Ég átti upphaf að lagi, sem ég hafði sett saman á leið til vinnu minnar í Reykjavík haustið 1965 og í febrúarbyrjun 1967 kom b-kaflinn. Við tvíburarnir æfðum lagið og fórum síðan á fund þeirra Loga og urðu þeir undir eins ánægðir með lagið. Fóru þeir með það til Ása.

Síðan leið og beið og engar fréttir komu af laginu. Mig minnir að vísu að ég hafi samið handa þeim tvö lög og völdu þeir annað þeirra enda verður að segja sem er að hitt lagið var vonlaust.

Einhvern tíma um vorið hittum við Helga Hermannsson á götu og innti ég hann eftir því hvort eitthvað væri að frétta. Sagði hann þá að Ási hefði ort texta um "einhvern helvítis draum" sem þeir gætu ekki og vildu ekki syngja. Reyndar varð ekkert af útgáfunni og Logar gáfu ekki út hljómplötu fyrr en árið 1973 og þar var lagið ekki.

Vonbrigðn urðu mikil. Við tvíburarnir mönnuðum okkur þó upp og fórum á fund Ása. Kynnti hann fyrir okkur ljóðið sem hann kallaði Fréttaauka. Áttaði ég mig undir eins á því að hér var um meistarasmíð að ræða. Við vorum á leið í tónleikaferð um Austurland, Norðurland og Vestfirði á vegum Hjálparsjóðs æskufólks og ákváðum að taka lagið, textalaust, til flutnings undir heitinu Stúlkan frá Víetnam, þar sem við sungum aldrei á þessum tónleikum. Ég lék á þessum árum á orgel og Gísli á blokkflautu. Skemmst er frá því að segja að laginu var vel tekið.

Við lékum lagið í útvarp árið 1968 og skömmu síðar bauð ég lag og texta fram til flutnings á Hótel Sögu. Ragnar Bjarnason spurði hvort ég væri genginn af göflunum. Allt þetta íhaldspakk, sem sækti dansleiki (ég held að Ragnar hafi þarna gert að gamni sínu) myndi ganga út ef það heyrði þennan texta. En Ragnar lét útsetja lagið fyrir flautu og var það flutt í hálfgerðri jazz-útsetningu.

Í fyrsta skipti var lag og texti um hana litlu Ló sem bjó í Dong Sing Dó flutt opinberlega á dansleik á vegum háskólanema árið 1976, er hljómsveitin Wulfilins Orchestra var upp á sitt besta og vakti það firnamikla hrifningu, einkum ljóðið. Þegar ákveðið var að gefa út hljómplötuna Í bróðerni með lögum okkar tvíburanna árið 1981 þótti sjálfsagt að lagið yrði þar á meðal.

Þegar farið var að undirbúa sjötugsafmæli Ása í Bæ árið 1984 óskaði hann sérstaklega eftir að lagið yrði sungið. Fékk ég Guðrúnu Hólmgeirsdóttur til þess og útsetti það sem söhnglag við píanóundirleik. Síðar gerði Bára Grímsdóttir af því kórútsetningu sem Samkór Vestmannaeyja flutti nokkrum sinum.

Í sumar hringdi Árni Johnsen til mín og bað mig að leika undir með sér, en hann langaði til þess að syngja lagið inn á hljómplötu. Enn settist ég nður og gerði af því nýja útsetningu. Ég komst hins vegar að því að píanóleik mínum hafði hrakað svo að ég treystist ekki til þess að leika undir hjá honum og styrktist þessi skoðun mín enn frekar þegar ég heyrði að Óskar Einarsson, tónlistarstjóri hvítasunnumanna, væri aðalundirleikari hans á plötunni.

Í raun er ljóðið Fréttaauki mikið sorgarljóð og ef til vill kemur hin ágæta útsetning Helga Kristjánssonar frá 1981 því ekki nægilega vel til skila.

Þegar ég var í Vestmannaeyjum með nemendum í hagnýtri fjölmiðlun árið 1997 komst ég að því að lagið væri vinsælt sönglag þar. Ekki veit ég hvort Vestmannaeyingar ráða við alla hálftónana í laginu og ekki veit ég heldur hvernig Árna mínum Johnsen hefur reitt af í glímunni við þá. Sigurður rúnar Jónsson stjórnaði hljóðritun hljómdisks Árna og hann stýrði líka hljóðritun lagsins árið 1981 og hefur því væntanlega haft hönd í bagga eins og Árni sagði mér reyndar sjálfur.

Mér þykir vænt um að Frétaaukinn skyldi ekki gleymast þegar ákveðið var að gefa út heildarútgáfu laga og texta Ása í Bæ. Sjálfur minnist ég þess stundum í hálfkæringi, að þegar ég samdi lagið var ég skotinn í stelpu og fól nafn hennar í hrynjandi lagsins. Af tillitssemi við hana birti ég nafn hennar ekki hér en hún hefur heyrt alla sólarsöguna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband