Þyrluglaðir góððborgarar urðu ekki hungurmorða

Þegar fjórmálabólan myndaðist fyrir nokkrum árum fór þeim Íslenndingum fjölgandi sem höfðu meira á milli handanna en áður hafði þekkst. Bárust þeir og meira á en tíðkast hafði um árabil. Í stað þess að auðmenn á söguöld áttu knerri eiga nú nokkrir Íslendingar þyrlur og einkaþotur.

Lítið hefur farið fyrir umræðunni um þessa auðumenn að undanförnu. Þó hafa heyrst raddir sem vorkenna þeim sem hafa misst mikinn hluta auðs síns vegna óvarlegra fjárfestinga.

Greinilegt er þó að ekki eiga þeir allir bágt, svo að vitnað sé í orð fyrrum utanríkisráðherra sem féllu í umræðum um velferðarmál seint á síðustu öld.

Í Skessuhorni er skýrt frá nokkrum jakkafatamönnum sem skruppu úr veiði í þyrlu til þess að kaupa sér eina með öllu í Baulu í Borgarfirði. Þessir ágætu menn hafa væntanlega hvorki áhyggjur af mengun né sparnaði.

Þessir menn leggja sjálfsagt lítið af mörkum til þess að lagfæra efnahagsástandið.

Frétt Skessuhorns minnir óþægilega á söguna um Andreotti, sem var lengi forsætisráðherra Ítala á síðustu öld og gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum, enda var hann þingmaður um áratugaskeið.

Eitt sinn varð hann bensínlaus skammt fyrir utan Rómaborg en komst þó á næstu bensínstöð. Bað hann afgreiðslumanninn að fylla á bílinn hjá sér.

Þegar Andreotti ætlaði að borga bensínið komst hann að því að hann hefði gleymt veskinu sínu heima.

Hann bað afgreiðslumanninn að lána sér fyrir bensíninu. Sá brást við hinn reiðasti og sagði að alltaf væru einhverjir að biðja sig um lán en kæmu síðan aldrei aftur.

"Já, en þú veist hver ég er," svaraði Andreotti.

Afgreiðslumaðurinn sagðist aldrei hafa séð hann áður.

Andreotti sagðist hafa verið í stjórnmálum í 30 ár og hann hlyti að vita deili á sér.

Afgreiðslumaðurinn sagði þá frá því að daginn áður hefði komið til sín ballerína og dansað fyrir sig atriði úr Svanavatninu og þar áður hefði komið knattspyrnukappi sem sparkaði listilega bolta. "Og hvað getur þú gert?"

Andreotti hugsaði sig um og sagðist ekkert kunna.

"Allt í lagi," svaraði afgreiðslumaðurinn. "Ég trúi þér."

Jakkafataklæddu Íslendingarnir gleymdu líka veskjunum heima en eigandi Baulu hafði séð þá áður. Hann sá því aumur á þeim og lánaði þeim fyrir pylsunum.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

,,Þessir menn leggja sjálfsagt lítið af mörkum til þess að lagfæra efnahagsástandið."

Er það ekki það besta sem þeir geta gert, að eyða peningunum sínum hér innanlands sem skapar í kjölfarið atvinnu fyrir okkur meðalfólkið, í stað þess að fara til New York eða London og leika sér þar? Við meðalfólkið (lesist: námsmaður í mínu tilfelli) eigum að vera ánægð að þeir ríku eyði peningunum sínum hér á landi, því verslun og þjónusta hefur gott af seðlunum þeirra. Það versta sem þeir geta gert fyrir samfélagið er að liggja á peningunum og deila þeim ekki með okkur hinum. Vonum bara að þeir borgi svo fyrir pylsurnar þegar veiðin er búin og kreditkortin fundin.

Ólafur (IP-tala skráð) 10.7.2008 kl. 12:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband