Safnadagurinn, Björn Bjarnason og Evrópumálin

Í dag fórum við hjónin á safnarölt með Hring og Birgi litla Þór. Ekki þurfti að hafa áhyggjur af áhuga unglingsins en hitt kom okkur á óvart hvað sá stutti, aðeins rúmlega þriggja ára gamall, naut þess að skoða það sem fyrir augun bar.

Við hófum yfirreiðina í Byggðasafni Hafnarfjarðar og skoðuðum það í krók og kring. Nokkuð þótti okkur skorta á að hlutir væru skilmerkilega merktir.

Meginhluti byggðasafnsins í Hafnarfirði er varðveittur í gömlu pakkhúsi á þremur hæðum. Varð mér hugsað til þess siðar Íslendinga að koma slíkum sýningum ævinlega fyrir í jafnóaðgengilegu húsnæði og þetta hús er. Ekki veit ég til þess að gerð hafi verið nein tilraun til þess að bæta úr aðgengi í þessu húsi. Hús eru eins og skip. Þau breytast með breyttum tíðaranda og eitt af því sem ætti að vera sjálfsagt er að bæta aðgengi hreyfihamlaðra að því húsnæði sem notað er undir slíka starfsemi.

Sunnan úr Hafnarfirði stormuðum við norður í Reykjavík eða inneftir eins og sumir orða það. Námum við staðar á Sjóminjasafninu þar sem Sigrún Magnúsdóttir, framsóknarkona, ræður ríkjum. Við afgreiðslu sat maður hennar, Páll Pétursson, fyrrum félagsmálaráðherra, og heilsuðumst við. Þetta sjóminjasafn er um margt vel heppnað og þar hefur verið gerð nokkur tilraun til þess að gera vissa hluti þess aðgengilega hreyfihömluðu fólki. Sumt af því hefði mátt hugsa betur og hefur e.t.v. verið gert. Páll sagði mér að fyrstu hugmyndir um sjóminjasafn í Reykjavík væru 100 ára gamlar. Íslendingar höfðu aldrei á því rænu að varðveita eitthvað sem markvert væri og gæti orðið grundvöllur ríkisrekins sjóminjasafns. Allir muna hvernig fór fyrir bátaflota þjóðminjasafnsins sem brann suður í Kópavogi fyrir nokkrum árum. Það er eitt af vorum vondu menningarslysum.

Það er til dæmis merkilegt að enginn kútter skuli lengur vera til, sjófær hér á landi, enginn gufutogari eða nýsköpunartogari og lítið af íslenskri skipasmíði. Þó verður að geta þess sem vel er, en Ísfirðingar og Siglfirðingar hafa verið þar til einnar mestrar fyrirmyndar. Þá á Þorvaldur Skaftason heiður skilinn fyrir að hafa bjargað Húna II frá glötun. Vestmannaeyingar eiga ekkert sjóminjasafn og fátt sem minnir á hina glæstu skipasmíða- og útgerðarsögu byggðalagsins.

Við héldum um borð í Óðin, en þangað hef ég ekki komið í 47 ár, minnir að ég hafi einhvern tíma farið með Magga vini mínum í Skuld þangað á árum áður. Eða var það kannski Þór árið 1959? Um borð í Óðni hittum við Ólaf Sigurðsson, skipherra, en hann fór með Eiríki Kristóferssyni að sækja skipið til Danmerkur árið 1960. Var Ólafur þar til sýnis í embættisskrúða sínum og skiptumst við á vinsamlegum athugasemdum eins og við erum vanir þegar við hittumst.

Óðinn er gott dæmi um það sem hægt er að gera til þess að varðveita gamlar minjar ef vilji er fyrir hendi. Vonandi fær hann að fljóta sem lengst við hafnarbakkann í Reykjavík og minna ókomnar kynslóðir á þá baráttu sem heyja varð til þess að ná þeim árangri sem löngu er kunnur orðinn.

Eftir að heim kom las ég á mbl.is frétt um hugleiðingar Björns Bjarnasonar um að kanna hvort hægt væri að taka upp myntsamband við Evrópubandalagið. Fór ég inn á heimasíðu Björns til þess að lesa það sem hann hafði skrifað í dag. Ég lít öðru hverju inn á síðuna því að oft er bæði fróðlegt og skemmtilegt að lesa það sem Björn hefur að segja. Hann setur mál sitt fram með afar hnitmiðuðum hætti enda gamall blaðamaður og veit hvernig á að fjalla um málefnin.

Tvennt vakti athygli mína í skrifum Björns í dag: tilvitnun hans í fréttamenn sem greinilega létu skoðanir sínar á ljós á tilteknum mótmælaaðgerðum. Þvi miður er þetta slæmur siður sem margir blaða- og fréttamenn hafa tileinkað sér að geta ekki fjallað með huglægum hætti um málefni. Björn gætti þess hins vegar að leggja ekki dóm á þessi vinnubrögð.

Hitt voru vangaveltur hans um myntsamband okkar við Evrópubandalagið. Ég hélt í einfeldni minni að yfirvöld í Brussel hefðu endanlega blásið þessar hugmyndir af fyrir nokkrum mánuðum, enda verður að segja að umfjöllun áhugamanna um Evruna voru næsta einfeldingslegar í ljósi þess að ströng skilyrði eru sett fyrir upptöku Evrunnar og þar á meðal aðild að Evrópusambandinu. En Björn kemur þarna með ákveðið sjónarhorn sem vert er að skoða fremur en aðild að Evrópusambandinu.

Fyrir skömmu birtist í Morgunblaðinu úttekt á aðstöðu Íra innan Evrópusambandsins, en þeim hefur hækkandi gengi Evrunnar skapað ákveðið vandamál. Það er hin hliðin á því sem við Íslendingar höfum fengið að kynnast um þessar mundir.

Þess vegna er raunalegt til þess að hugsa að hagsmunasamtök hér á landi skuli ekki bindast samtökum um að efna til umræðu um þá kosti sem fyrir hendi eru í gjaldeyrismálum okkar. Ef til vill bera stjórnvöld nú gæfu til þess að koma þessum hugleiðingum í réttan farveg landi og lýð til heilla. Hæðið er að bankarnir geri það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband