Litla gula hænan

Um daginn lá við að brimið hrifi þýska ferðamenn með sér í fjörunni við Reynisdranga.

Frá aldaöðli hefur verið vitað að sjólagið við Vík í Mýrdal og nágrenni er ekkert lamb að leika sér við. Það fengu skipverjar á Skaftfellingi að reyna oftar en einu sinni, en þeir urðu iðulega að snúa frá vegna þess að sjólag versnaði skyndilega svo að ekki var hægt að skipa upp vörum.

Í kvöld heyrði ég afar ógeðfelt viðtal við bónda þann sem á sennilega mestan reka á fjörum við Reynisdranga. Hyggst hann banna ferðamönnum aðgang að svæðinu og telur ekki í sínum verkahring að setja upp varúðarskilti um sjólag. Ef hann treystir sér ekki til þess verður hann víst að láta sér linda að fólk gangi þar um sér til ánægju og yndisauka.

Samkvæmt ákvæðum Jónsbókar frá 1284, sem enn eru í gildi, getur bóndinn ekki bannað mönnum að ganga um fjöruna. Hann getur hins vegar bannað þeim að nytja rekann.

Bóndinn hafði þó nokkuð til síns máls þegar hann ræddi um viðvörunarskiltin. Ferðamálastofa ætti að sjá sóma sinn í að sinna málum eins og nauðsynlegum varúðarskiltum á stöðum þar sem ekki er krafist gjalds.

Úr því að farið er að ræða um varúðarskilti þótti mér stórlega vanta á að alls öryggis væri gætt við hverasvæðið í Krýsuvík þegar við hjón vorum þar á ferð um daginn. Að vísu hefur verið bætt við nokkrum nýjum pöllum. Aðrir virðast mér farnir að fúna og á nokkrum stöðum vantar rimar í pallana. Þá er ekkert GSM-samband í Krýsuvík og verður það að teljast ámælisvert.

En það er sama sagan hér á landi. Hver og einn segir: ekki ég. Það sagði litla gula hænan einnig hérum árið og virðist ferðamálastjóri jafnvel taka undir orð hennar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband