Mannúðarverk á stríðstímum

Í dag voru 66 ár liðin frá því að áhöfn Skaftfellings bjargaði 52 skipbrotsmönnum af þýskum kafbáti sem sökkt var um 170 sjómílur suðaustur af Hornafirði.

Þessi björgun var einstakt afrek og bar vott um mannúð þá sem íslenskir sjómenn sýndu ávallt og hafa sýnt. Ekki skipti máli hverrar þjóðar mennirnir voru. Þeim skyldi bjargað.

Margt var skrýtið við þann atburð, til að mynda það að einn úr áhöfninni skyldi tala íslensku og biðja kokkinn fyrir kveðju til Guðrúnar Gísladóttur á Smiðjustíg 11. Annar vélstjórinn, Jón Hjálmarsson, heyrði orðaskiptin og greindi mér frá þeim árið 1999. Ég fór á fund gömlu konunnar sem hafði þá aldrei fengið kveðjuna og áttaði sig hreint ekki á því hver þetta gæti hafa verið.

Hún sagði mér þó skemmtilega sögu frá árinu 1934 þegar hún fór ásamt vinkonu sinni í skemmtigöngu með tveimur ungum mönnum í skemmtigarði í Leipzig. Hún og annar ungi maðurinn drógust aftur úr.

Hvernig heldurðu, spurði hann, að börnin okkar yrðu, við sem erum svona ljós yfirlitum og hánorræn.

Hún kvaðst hafa neitað að svara spurningunni enda hefðu þau aðeins þekkst í hálftíma. Firrtist þá ungi maðurinn við. Guðrún sagðist ekki hafa haft neinn áhuga á einhvers konar kynbótastarfsemi.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Alveg með eindæmum hvað gamla konan fékk kveðjuna seint. Þjóðverjinn hefði betur sent henni póstkort frá Hornafirði.

Stebbi (IP-tala skráð) 21.8.2008 kl. 16:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband