Hreinskilni Jónasar H. Haralz

Í spegli Ríkisútvarpsins í gær var viðtal við Jónas H. Haralz, fyrrum bankastjóra og efnahagsráðgjafa, um fjárfestingar í orkuverum og hagkerfið í landinu.

Ég man fyrst eftir umræðum um Jónas Haralz á 7. áratugnum þegar faðir minn velti vöngum yfir álitsgerðum Alþjóðabankans um efnahagsástandið á Íslandi. Velti hann því fyrir sér hvort Jónas hefði samið skýrslurnar.

Jónas er fæddur árið 1919, frábærlega glöggur maður og svo fróður um ýmsa hluti íslensks efnahagslífs að prófessorar í hagfræði vísa iðulega til hans um ýmis álitamál. Fjallaði hann í gær um ástæður þess að Íslendingar nýttu sér ekki aukið frjálsræði í alþjóðlegum fjármálum til að styrkja innviði samfélagsins og var greining hans á því athyglisverð. Má velta vöngum yfir því hvort í ljósi orða Jónasar hefði mátt komast hjá því sem riðið hefr yfir íslenska efnahagskerfið að undanförnu. Ráðlegg ég áhugasömu fólki að fara á netið og hlusta á spegilinn: http://ruv.is

Í viðtali spegilsins í gær vék Jónas Haralz m.a. að því geðvonskuverki Davíðs Oddssonar að leggja niður Þjóðhagsstofnun um síðustu aldamót. Mátti skilja á Jónasi að skynsamlegra hefði verið að endurnýja starfslið stofnunarinnar í stað þess að leggja hana niður. Nú væri engin stofnun á Íslandi sem hefði heildaryfirsýn yfir efnahagsmálin og væri til þess bær að vera ríkisstjórn til ráðuneytis.

Þótt menn hafi á stundum verið misjafnlega hrifnir af álitsgerðum Þjóðhagsstofnunar voru menn enn minna hrifnir af þessari geðþóttaákvörðun Davíðs að leggja stofnunina niður. Davíð var svo einvaldur í ríkisstjórnum sínum að hann réð því sem hann vildi. Hvorki framsóknarmenn né þingmenn og ráðherrar Sjálfstæðisflokksins fengu neinu ráðið.

Nú þegar einveldi Davíðs er að mestu fyrir bý ættu menn að huga að endurnýjun stofnana sem hafa heildaryfirlit yfir þjóðarbúskapinn. Þetta á einnig við um fleiri svið íslensks mannlífs. Þess vegna hljóta menn að hugsa sig tvisvar um áður en verkefnum verður velt yfir á sveitarfélögin.

Nóg er nú stjórnleysið samt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband