Eins og slökkvilið án vatns

Þegar Morgunblaðinu er flett í dag ber einna mest á fréttum um viðskipti og fjármál. Er það að vonum því að miklar sviptingar eru nú á þessu sviði og krónan eins og korktappi í ólgusjó. Eða er hún e.t.v. eins og gamalt og lekt eikarskip? Hún flýtur vart lengur eins og á meðan hún var úr áli. Í Mogganum er því spáð að hún muni falla enn frekar og hefur mér verið tjáð að fari gengisvísitalan upp fyrir 200 stig fari að hrikta verulega í grunnstoðum ýmissa einstaklinga og fyrirtækja. Því verði leitað allra leiða til þess að hún fari ekki upp fyrir 195 stig.

Í gær tók ég þátt í skemmtilegum og að mörgu leyti athyglisverðum umræðum um fjármál og viðskipti hér á landi. Var þar einkum fjallað um sölu og kaup gamalla og gróinna fyrirtækja sem voru blóðmjólkuð svo gersamlega að vart stendur nú steinn yfir steini. Voru þar ýmis orð notuð eins og siðspilling, fjárglæframenn o.s.frv. Þá höfðu menn litla trú á að efnahagsráðgjafi forsætisráðherra kæmi auga á neina lausn og voru nefnd nokkur dæmi um meinta fjármálasnilli hans. Sjálfur gat ég skotið inn athugasemd um aðför hans að íslenska velferðarkerfinu fyrir þremur árum. Við því brást Öryrkjabandalagið með útgáfu skýrslu sem greindi velferðarkrfið með mun skynsamlegri hætti en gert var í skýrslu núverandi efnahagsráðgjafa sem hefur takmarkaða þekkingu á innviðum velferðarkerfisins. Reynt var að fá fjármálaráðherra til þess að taka vitrænan þátt í þeirri umræðu en það bar engan árangur. Hann virtist hreinlega ekki skilja um hvað málið snerist og skilningur hans virðist enn takmarkaður á því sem nú gerist enda þegir hann þunnu hljóði. Hélt einn viðmælandinn því fram að Geir Haarde þyrfti ekki á ráðgjafanum að halda enda hefði hann miklu meira vit á fjármálum og hagsveiflum en núverandi ráðgjafi.

Sameiginleg niðurstaða varð sú að fjármálaeftirlitið hefði reynst handónýtt þótt flestir vissu að hverju fór í rekstri, kaupum og sölu fyrirtækjanna. Nefndi einn okkar að Fjármálaeftirlitið væri eins og slökkvilið án vatns.

Þegar syrtir í álinn er einnig nauðsynlegt að fjalla um það sem vel hefur til tekist. Í viðskiptablaði Moggans ma m.a. sjá frétt um fata- og skóverslun við Laugaveginn sem virðist dafna þrátt fyrir samdráttinn. Ljósvakamiðlarnir mættu gjarnan fjalla um fleiri slík mál og Spegill Ríkisútvarpsins þarf að taka sig á og nefna ýmislegt sem vel hefur tekist í íslensku efnahags- og atvinnulífi.

Á góma bar einnig þá staðreynd að mörg fyrirtæki hefðu verið tekin af markaði hér á landi og virðast þau flest tengjast Baugi. Veltu menn því fyrir sér hver ástæðan væri. Enginn fjölmiðill virðist hafa skoðað þau mál af gaumgæfni. Ef til vill þora þeir ekki að hætta sér út á þá braut því að þeir kunna með einum eða öðrum hætti að vera flæktir í þá atburðarás.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband