Hroðvirkir morgunbænaprestar

Fjöldi fólks hlustar á morgunbænir Ríkisútvarpsins. Prestarnir eru misgóðir eins og gengur. Sumir vanda verk sitt en aðrir kasta til þess höndunum.

Sá, sem nú flytur morgunbænirnar, hefur allt í föstum skorðum. Hann biður bæn, fer síðan ævinlega með sama versið og endar svo á faðirvorinu.

Næsti prestur þar á undan rumpaði bæninni af á örskotsstundu og sleppti faðirvorinu.

Nú greiðir Ríkisútvarpið sjálfsagt fyrir þessar vélbænir og læðist að mér sá grunur að prestunum þyki, sumum hverjum, það tæplega borga sig að vanda um of bænirnar, greiðslurnar séu svo lágar.

Fyrir rúmum fjórum áratugum skipuðu morgunbænir Ríkisútvarpsins virðulegri sess og eftir því var tekið hvernig prestunum mæltist. Séra Sigurður Haukur Guðjónsson vandaði svo um við hlustendur að settar voru reglur um það sem prestarnir mættu segja. Eftir það varð allt með mun flatneskjulegri brag enda má svo sem halda því fram að prestar eigi ekki að nota tækifærið og troða skoðunum sínum upp á hlustendur.

Íslenska þjóðkirkjan er ríkiskirkja. Þó hefur prestum kristinna safnaða, sem standa utan Þjóðkirkjunnar, verið leyft að komast að við morgunbænirnar, enda hafi þeir hlotið menntun sína í guðfræðideild Háskóla Íslands. Það eru ýmsir trúarhópar sem ættu erindi við hlustendur, ef morgunbænunum væri á ný breytt í hugvekjur eins og þær voru í árdaga. Slíkar hugvekjur gætu, ef vel tækist til, orðið til þess að brúa bilið á milli trúarhópa hér á landi og gera mönnum ljóst að flest trúarbrögð mannkynsins eru sprottin af sama meiði.

Frammistaða síðustu tveggja presta, sem flutt hafa morgunbænirnar, er með þeim hætti að Ríkisútvarpið og Þjóðkirkjan verða að ræðast við um það hvernig og hvort þessum bænum verði haldið áfram. Hlustendum er vart bjóðandi að doktor í guðfræði kunni aðeins eitt vers og prestur fari með morgunbæn án þess að biðja bænir.

Göngum í Guðs friði.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Örn Einarsson

Mikið er ég hjartanlega sammála þér. Þessar "bænir" undanfarið hafa meira pirrað mig ,en að færa mér andlega næringu inn í daginn. Blessaður sr. Sigurður Haukur kunni þetta , ásamt mörgum öðrum sómaklerknum.

Góð og þörf ábending hjá þér.

Einar Örn Einarsson, 26.9.2008 kl. 09:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband