Eiga Íslendingar einhverja bandamenn?

Íslendingar hafa lært að undanförnu, hver með sínum hætti, að sumar þjóðir eru bandamenn okkar þegar þeim hentar.

Bretar hafa jafnan sýnt Íslendingum ásælni frá því að þeir fóru að sigla um heimshöfin.

Má nefna ágang þeirra á 15. öld,

þeir hrundu sjálfstæði Jörundar hundadagakonungs (það var að vísu ekki burðugt),

Danir urðu að semja við Breta um þriggja mílna landhelgi við Ísland árið 1902 til þess að koma dönskum landbúnaðarafurðum inn á breskan markað,

í fyrri heimsstyrjöldinni var hér breskur erindreki sem ráðskaðist með allt og alla,

þeir hernáum landið 1940 og hrökkluðust síðan héðan og ofurseldu okkur Bandaríkjamönnum,

þeir settu löndunarbann á íslenskar sjávarafurðir þegar landhelgin var færð í fjórar mílur og fjörðum og höfnum lokað,

þeir hófu vopnuð átök gegn okkur árið 1958, aftur 1972 og síðan árið 1976 þegar landhelgin var færð í 12, 50 og 200 mílur.

Ýmislegt fleira mætti tína til sem sannar að Bretar hafa oftast sýnt Íslendingum eigingirni og yfirgang. Og nú síðast sýndu þeir af sér ragmennsku sem fáheyrð er og breski sendiherrann hjá SÞ aumkar sig síðan yfir Íslendinga með því að þykjast vorkenna þeim.

Í fjölskyldu minni ganga enn sögur af samskiptum föður míns, Helga Benediktssonar, við breska herinn. Þau mörkuðust af fádæma ósvífni og yfirgangi breska hersins sem enduðu með því að faðir minn sá ástæðu til að kæra yfirmenn setuliðsins hér á landi fyrir yfirmanni breska flotans á Norður-Atlantshafi. Í raun fékkst engin eða lítil leiðrétting þessara mála.

Í öllu því fárviðri sem gengið hefur yfir hefur verið merkilegt að fylgjast með skrifum þeirra sem óttast lántöku Íslendinga hjá Rússum. Eins og vikið hefur verið að á þessum síðum hafa Íslendingar átt áratuga farsæl viðskipti við Rússa en þeir komu okkur til hjálpar þegar breska ljónið (þeir kalla sig þetta sjálfir) sýndi vígtennarnar árið 1952.

Þá ber þess einnig að minnast að Rússar viðurkenndu fljótlega útfærslu landhelginnar árin 1952, 1958, 1972 og 1976. Það er því fátt sem ætti að valda Íslendingum ótta við að eiga samskipti við Rússland.

Á kaldastríðsárunum varð það fyrst og fremst Morgunblaðið sem magnaði upp Rússagrýluna og það svo mjög að sumu geðveilu fólki varð um megn. Var stundum haft á orði á þeim árum að rétt væri að Mogginn greiddi sjúkrakostnað sumra sem þurftu að leita geðlækna vegna ótta við Rússagrýluna. Þessir tímar eru sem betur fer horfnir enda engin blöð lengur ofurseld stjórnmálaflokkum.

Þá minni ég einnig á að Kínverjar hafa ævinlega sýnt okkur vinsemd. Okkur þóknaðist ekki að brjótast undan ofurvaldi Bandaríkjamanna og viðurkenna Kínverska alþýðulýðveldið fyrr en haustið 1971 og minnist ég enn þeirrar almennu gleði sem þá greip um sig. Þá var Sjálfstæðisflokkurinn ekki lengur við völd enda viðreisnin fallin. Og Kínverjar studdu útfærslu landhelginnar árin 1972 og 1976.

Menn ættu því að velta alvarlega fyrir sér hverjir séu bandamenn okkar í raun.

Það er óheppilegt að þeir Össur og Geir skuli ekki vera samhljóma í málflutningi sínum. Þótt Geir vilji halda öllum dyrum opnum hygg ég þó að Össur hafi mælt fyrir munn flestra þegar hann lýsti því yfir í gær að það samræmdist ekki þjóðarstolti Íslendinga að þiggja breskt loftferðareftirlit. Og í raun ætti að lágmarka öll samskipti við bresk stjórnvöld á meðan unnið er að lausn fjármálavandans og leitað skaðabóta.

Að lokum er skylt að geta þess að margir breskir þegnar hafa sest hér að og gerst nýtir borgarar. Ómaklegt er að þeir gjaldi heimsku breskra stjórnvalda enda hygg ég að þeir skammist sín flestir fyrir forystumenn sína hina bresku.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband