Sumarið, gengið, Ásgeir Hannes og hugsanleg málaferli gegn TR

Gleðilegt sumar.

Sumar boðar sælutíð,
söng og grasafjöld.
Kætast einkum börnin blíð
og basla fram á kvöld.
(Húsgangur af Seltjarnarnesi)

Í morgun hafði ég andvara á mér því að mig langaði til þess að hljóðrita hrafn sem hefur krúnkað fyrir okkur undanfarna morgna. En krummi rak bara upp eitt krúnk einhvers staðar í fjarska svo að ekkert varð af því að ég réðist til atlögu gegn krumma með hljóðnemann að vopni. Í stað þess hljóðreit ég söng og skvaldur þrasta sem byggja tré nokkurt í nágrenninu.

Í gær hafði ég um ýmislegt að hugsa í atvinnuleysinu. Hingað kom ung kona sem er að skrifa BA-ritgerð um hersetuna í Vestmannaeyjum á stríðsárunum, ég garfaði dálítið í málefnum Kínversk-íslenska menningarfélagsins, hugaði að gerð næstu hljóðmyndar fyrir Ríkisútvarpið og afritaði eitthvað af geisladiskum sem ég dreifði víða. Þá hóf ég undirbúning að því að safna sögum um samskipti fólks við framliðnar verur, anda, huldufólk og drauga, en ég hef afarmikinn áhuga á að halda slíkum heimildum til haga. Hlýtur það að verða hluti af þjóðlegu eðli Íslendinga að forsmá ekki slík fyrirbrigði.

Hægriöfgaflokkurinn.
Þá las ég um fyrirhugaða stofnun nýja hægriöfgaflokksins hans Ásgeirs Hannesar Eiríkssonar, sem ætlað er að hamla gegn fjölgun fólks af erlendu kyni hér á landi. Hvaða kyn skyldi Ásgeiri Hannesi hugnast? Skyldi hann hafa jafnmikla andstyggð á Tælendingum og Norðmönnum, eða skyldi hann vilja hingað fremur Breta en Kínverja. Allt þetta tal um einangrun landsins og útilokun fólks frá því að setjast hér að er dapurlegt á að hlýða. Hvort sem okkur er ljúft eða leitt hefur innflutt vinnuafl haldið uppi hagvextinum að nokkru leyti, en Íslendingar eru eins og Tíbetar voru áður en Kínverjar tóku til í fylkinu eftir 1950. Í Tíbet fengust menn ekki til að vinna ýmis störf eins og slátrun búfjár. Það verk unnu innfluttir múslímar. Nú vilja Íslendingar helst ekki vinna í fiski! En hvernig skyldu Íslendingar líta út ef þeir væru hreinn og einangraður kynstofn? Skyldi Ásgeir Hannes ekki vita að forfeður okkar voru germanskir, keltneskir og Samar og vafalaust hefur ýmislegt annað flotið með. Skyldi Dönum ekki detta í hug bráðum að stofna sérstakan stjórnmálaflokk sem hamlaði gegn offjölgun Íslendinga í danska velferðarkerfinu?

Gengishrapið.
Nú hrapar gengi krónunnar sem aldrei fyrr og velta ýmsir því fyrir sér hversu langt krónan hrapi. Þetta setur þá sem sinna m.a. ferðamálum í nokkurn vanda. Kínversk-íslenska menningarfélagið er að undirbúa ferð til Tíbets í ágúst, en væntanlega hækkar hún um tugi þúsunda ef heldur fram sem horfir. Sennilega dregur þetta eitthvað úr eyðslu okkar almennings í landina a.m.k. um stundarsakir.

Málaferli gegn Tryggingastofnun?
Í fyrstu skrifum mínum á þessari síðu gat ég um glaðning frá Tryggingastofnun ríkisins, en umsókn minni um starf var hafnað. Ég hef nú ákveðið að gera eitthvað í málinu og því var eftirfarandi bréf sent í gær:

Seltjarnarnesi, 19. apríl 2006.

Til þess er málið varðar.

Í síðastliðnum mánuði var starf upplýsingafulltrúa í þjónustuveri Tryggingastofnunar ríkisins auglýst laust til umsóknar og rann umsóknarfrestur út 2. þessa mánaðar. Ég sótti um starfið og skilaði umbeðnum upplýsingum.

Hinn 10. apríl síðastliðinn barst mér bréf undirritað af starfsmannastjóra stofnunarinnar þar sem mér var tjáð að ráðið hefði verið í starfið á grundvelli mats sem farið hefði fram.

Með vísan til upplýsingalaga nr. 50/1996, 4. gr. 4. töluliðar, óska ég hér með eftir upplýsingum um nafn þess sem ráðinn var í starfið og hvaða ástæður lágu til þess að sá, er starfið hlaut, var valinn umfram aðra umsækjendur.

Virðingarfyllst,

Arnþór Helgason
Kt. 0504522209
****************************
Arnþór Helgason
Tjarnarbóli 14
170 Seltjarnarnesi.
Símar: 5611703, 8973766
Netfang: arnthor.helgason@simnet.is


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband