Fleyið siglir ei framar

Þau tíðindi hafa borist að Åge Nigardsöy, formaður Norsku blindrasamtakanna, hafi látist í gærkvöld. Á hugann leita ótal minningar um skemmtilegan og framsækinn einstakling, fullan lífsorku og einstaklega glaðsinnaðan mann.

Á 8. áratugnum hófst mikið blómaskeið innan samtaka blindra og sjónskertra á Norðurlöndum. Hópur blinds fólks hafði aflað sér háskólamenntunar og viðhorf hans voru nokkur önnur en tíðkast hafði innan samtakanna. Þetta unga fólk var ákveðið í að verða hluti þeirrar þjóðfélagsheildar sem við eigum öll rétt á að taka þátt í.

Forystumenn blindrasamtakanna, svo sem Svend Jensen í Danmörku, Charles Hedquist í Svíþjóð og Eero Hækkinen frá Finnlandi að ógleymdum Arne Husveg, hinum atorkusama framkvæmdastjóra Norsku blindrasamtakanna, skynjuðu kall hins nýja tíma og stóðu fyrir því að hafin var umfangsmikil samvinna ungs, blinds fólks á Norðurlöndum.

Á Íslandi var sett á stofn æskulýðsnefnd blindra um þetta leyti og var mér falið að fara í kynnisferð til Noregs að kanna hvernig æskulýðsstarfi væri háttað þar. Varð ۏÅge Nigardsöy félagi minn og leiðsögumaður í Ósló. Dáðist ég mjög að víðsýni hans og hæfileika hans til þess að setja hlutina í ótrúlegt samhengi. Á norræna æskulýðsfundinum, sem þá var haldinn, var hann sjálfsagður og ókrýndur leiðtogi.

Við ۏÅge áttum ýmislegt sameiginlegt svo sem áhuga á hljóðritunum. Einnig höfðum við áhuga á bókmenntum og sögu. Hann stóð fyrir útgáfu hljóðtímarits handa ungu, blindu fólki, Ulyd (Óhljóð) og var það gjarnan ótrúlega skemmtilegt, fullt af lífi og margs konar hugmyndum og hljóðum.

Samstarf okkar ۏÅge stóð talsvert frameftir 9. áratugnum. Þegar ég hvarf úr norræna blindrastarfinu dró úr samskiptunum.

Fyrir nokkrum árum var haldin hér norræn blindraráðstefna og þar var Åge. Ég varð var við að sjón hans hafði nokkuð daprast, en hann var enn sami, hlýi og glaðlyndi maðurinn og fyrr.

Åge var mikils metinn innan Norsku blindrasamtakanna og á norrænum vettvangi. Ég minnist hans með hlýju og votta samúð mína fjölskyldu hans og félagsmönnum Norsku blindrasamtakanna.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband