Bölvað í Ríkisútvarpið fyrir hönd þjóðarinnar - södd þjóð gerir aldrei byltingu

Mikið djöfull er Eiríkur Guðmundsson í Víðsjá Ríkisútvarpsins orðinn leiður á sjónvarpsmyndum af sumarhúsum, snekkjum og öðru því um líku. Ég hef ekki heyrt virðulegan útvarpsmann bölva síðan Magnús Bjarnfreðsson fékk hnerra í´þættinum "Efst á baugi" á 7. áratugnum og sagði þá: Djöfulsins, helvítis, andskotans andskoti. Þetta þótti hraustlega mælt og hefur e.t.v. verið lesið í beinni útsendingu. Rétt væri að spyrja Björgvin Guðmundsson að þessu, en hann var einn umsjónarmanna þáttarins.

Ég skil hins vegar Eirík mætavel og ég hef einnig fullan skilning á tillögu Vinstri-grænna um að frysta eignir stóreignamanna íslenskra í útlöndum.Ég skil Sigurð Kára Kristjánsson og undanslátt hans sem svo að hætt sé við að Sjálfstæðisflokkurinn verði við sama heygarðshornið um að enginn megi sæta ábyrgð. Engar reglur, aðeins einhver siðferðileg viðmið. Svo er undir hverjum og einum komið hvaða viðmið tekst að setja hverju sinni.

Ég ætla ekki að láta það eftir mér að bölva einum né neinum. Helgi Benediktsson, faðir minn, taldi það vott um heimsku að bölva. Eftir því að dæma er ég einn heimskasti maður landsins því að ég bölva oft ýmsu í sand og ösku, t.d. skáphurðum og hornum sem ég rekst á ásamt kyrrstæðum bifreiðum á gangstéttum eða bílstjórum sem brjóta á gangandi vegfarendum við gangbrautir. Þá langar mig einatt að vera með hlaupstýfða haglabyssu. Meiri er nú ekki þroski minn. Þegar ég verð sem reiðastur yfir ranglæti samfélagsins fer ég inn í stofu og sem eins og einn byltingarmars sem ég ímynda mér að einhver kór syngi einhvern tíma við undirleik sinfóníuhljómsveitar í útsetningu kínversks tónskálds. En þessir byltingarmarsar hverfa jafnóðum út í himingeiminn öllum að meinalausu.

fyrirgefi mér nú allar góðar vættir. Stefán Jónsson, sem þá var fréttamaður, sagði við mig haustið 1969 að södd þjóð gerði aldrei byltingu. Ætli við Íslendingar séum orðnir nógu svangir til að breyta einu eða neinu í stjórnmálum þessa skers?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ég held að þetta sé rétt hjá þér,og Stefáni.........

Res (IP-tala skráð) 23.10.2008 kl. 19:06

2 Smámynd: Sigurður Hreiðar

Andskoti var þetta mergjaður pistill hjá þér!

En sé athugasemd Stefáns Jónssonar rétt hefðu Íslendingar átt að gera byltingar öldum saman -- amk. frá tímum Gamla sáttmála fram yfir heimsstyrjöldina síðari. Allan þann tíma voru þeir meira og minna sársoltnir.

Kveðja frá einum sem tvinnar eins og hann getur -- þegar hann sér sér færi.

Sigurður Hreiðar, 23.10.2008 kl. 20:55

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband