Þankar um orkunýtingu

Á þriðjudagskvöldum er útvarpað á Rás eitt þáttum sem nefnast "Í heyrandahljóði". Þar eru birt erindi sem haldin hafa verið á ýmsum málþingum.

Síðustu tvo þriðjudaga var útvarpað erindum sem flutt voru á málþingi, sem Björk Guðmundsdóttir og félagar efndu til í Háskólanum í Reykjavík. Þar leituðust menn við að kynna nýjar hugmyndir um nýtingu íslenskrar náttúru.

Áróður virkjanasinna og álversaðdáenda hefur verið slíkur gegn hugmyndum Bjarkar að líkja má við einelti. Einhvern veginn virðast þeim allir heimskir nema þeir sem vilja framleiða ál og meira ál hvað sem það kostar.

Ég staldraði við erindi Bergs Sigurðssonar, framkvæmdastjóra Landverndar, en hann ræddi um virkjunaráform hér á landi. Ræddi hann m.a. um hina lélegu orkunýtingu sem felst í raforkuframleiðslu með jarðvarmavirkjunum, en einungis tíundi hluti orkunnar nýtist með þeim hætti.

Þegar um hægist og menn fara að hugsa um eitthvað annað en fjármálakreppu og tapaðan gróða hljóta menn að endurmeta áform um frekari virkjanir í þágu áliðnaðarins. Nú hefur verið mikil sókn eftir sjálfbærri orku og þegar kreppunni linnir má vænta þess að stórfyrirtæki fari að huga að fjárfestingum í orkufrekum iðnaði. Líkur benda til að nokkur afturkippur komi í alþjóðavæðinguna og men hyggi að því hvernig hægt sé að tryggja sem best lífskjör og jöfnust í hverju landi.

Íslendingar leggja sennilega bestan skerf til bættra lífshátta með því að hugsa um hvernig þeir geti varðveitt hreinleika óspilltrar náttúru. Það gera menn hvorki með álverum né olíuhreinsunarstöðvum. Vonandi fer hlutur olíu minnkandi á næstu áratugum og þá væri varhugarvert að tjalda til einnar nætur með því að stofna til olíuhreinsunarstöðvar á Vestfjörðum.

Þingeyingar ættu jafnframt að endurmeta afstöðu sína til álvers á Bakka. Margs konar tækifæri önnur eru fyrir hendi. Álið þarf að flytja langt að og af því stafar bæði mengun og orkusóun. Hugbúnað og gögn er hægt að flytja til landsins með strengjum og gögnin menga ekki.

Tíu prósent orkunýting. Er það góð fjárfesting? Leggja Íslendingar nægilegan skerf til hnattrænnar velferðar með því að stuðla að meiri orkusóun og eyðileggingu náttúruverðmæta?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband