Þjóðhressandi tónleikar

Í gær leiddu saman hesta sína í Háskólabíói Sinnfóníuhljómsveit Íslands og Kristján Jóhannsson undir stjórn Petri Sakari þess hljómsveitarstjóra sem hefur átt hvað drýgstan þátt í að gera Sinfóníuhljómsveit Íslands að þeirri gæðahljómsveit sem hún er. Á dagskránni voru aríur eftir Puccini og Leoncavallo, Karnevalforleikur eftir Dvorák, þrjú íslensk sönglög, tveir þættir úr Pétri Gaut eftir Grieg og 5. sinfónía Beethovens - engin tónlist frá óvinveittum þjóðum.

Kristján er sennilega rómsterkastur íslenskra tenora og á köflum tókst honum svo vel upp að tárin brutust fram í augnkróka sumra áheyrenda enda var honum fagnað innilega og vel. Leikur hljómsveitarinnar var yfirleitt góður og stjórnin örugg. Einhvern veginn fannst mér samt 5. sinfónían gjörsneydd allri tilfinningu.

Hljómsveitin og Kristján gera það ekki endasleppt við þjóðina um þessar mundir. Leikur hljómsveitin í verslunarmiðstöðum og á þriðjudaginn geta Akureyringar hlakkað til að fá hana og Kristján í heimsókn.

Það var dálítið skemmtilegt að láta hugann reika á meðan "Sjá dagar koma" eftir þá Davíð Stefánsson og Sigurð Þórðarson var flutt. Kristján steytti hnefana til þess að leggja áherslu á boðskap kvæðisins og sanna fyrir áheyrendum að Íslendingar væru engir aukvisar þótt á móti blési og nokkrir spreðurbassar hefðu sólundað eigum okkar út um víðan völl enda stappaði hann stálinu í áheyrendur svo að þeir bólgnuðu út og sætin þrengdu að þeim. Andrúmsloftið var rafurmagnað og ég heyrði afa minn í Skuld hvísla handan eilífðarinnar: "Eg skal!" Og ég hugsaði sem aðrir: ÉG SKAL!!!!!!!!!!!! og ÞJÓÐIN SKAL!!!!!!!!!!!!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband