Áhugi yfirvalda í Shandongfylki á íslenskri þekkingu

Í gærkvöld sátum við formaður Kím, Ólafur Egilsson, fyrrum sendiherra, ásamt Gylfa Magnússyni, hagfræðingi, kvöldverð með sendinefnd frá pólitísku ráðgjafasamkundunni í Shandong-fylki í Kína. Þessi merka stofnun stendur til hliðar við alþýðuþingið, löggjafarsamkomu landsins, en þar sitja fulltrúar ýmissa flokka sem voru til fyrir byltingu. Gegna fulltrúar þessir mikilvægu hlutverki á ýmsum sviðum og eru stjórnvöldum til liðsinnis um ýmis mál. Tilgangur sendinefndarinnar hingað til lands varr m.a. að kynna sér nýtingu jarðvarmaorku.

Leiðsögumaður nefndarinnar var kínverskur og eitthvað virðist hafa farið á milli mála um kynningu hans. Héldu nefndarmenn að Íslendingar nýttu nær eingöngu grunnvarma úr hverum, en sögðu að í Shandong væri jarðhiti djúpt í iðrum jarðar. Tókst með ágætum að leiðrétta þennan misskilning og hefur Kínversk-íslenska menningarfélagið boðist til að koma á nauðsynlegum tengslum milli íslenskra orkufyrirtækja og yfirvalda í Shandong-fylki.

Það er með öðrum orðum enginn bilbugur á Kím þótt komið sé á miðjan sextugsaldur - orkuríkt menningarfélag í orkuríku landi.

Efnahagsástandið hér á landi bar á góma og sögðust nefndarmenn hafa heyrt tröllasögur af ástandinu hér á landi. Gylfi Magnússon rakti með ágætum ástæður kreppunnar hér á landi og hlustuðu Kínverjar af athygli á útskýringarhans. Varð niðurstaða þeirra sú að þótt Íslendingar væru fórnarlömb alþjóðlegrar kreppu sem setti mark sitt á flest lönd þessa heims, læddist þó að þeim sá grunur að hér hlyti að hafa skort virkt eftirlit með bönkunum. Sjálfsagt hafa þeir túlkað þögn okkar sem samþykki við fullyrðingu sinni.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband