Aukaverkanir Realplayer

Um daginn setti ég upp Realplayer til þess að geta hlustað á ýmislegt efni frá breska útvarpinu.

Forritið setti sjálft upp eitthvað sem kallast Google Desktop sem gerir kleift að leita á Google beint frá skjáborðinu. Þetta forrit breytti síðan útliti forrita eins og Outlook og það sem var verra: Realplayer ákvað að verða forgangsforrit þegar geisladiskar voru settir í tölvuna.
Í gær reyndi síðan hugbúnaðurinn að uppfæra sig en tókst ekki af einhverjum ástæðum þar sem þjónustan var ekki sögð vera fyrr hendi.

Þótt Microsoft hafi verið skammað fyrir frekju og yfirgang verður að segja þeim til hróss að þeir hafa hugsað flestum meira um aðgengi allra að tölvubúnaði. Það kom að vísu ekki til af góðu því að bandarísku blindrasamtökin hótuðu að lögsækja þá árið 1995 þegar Windows 95 kom á markaðinn, en það var blindu fólki algerlega óaðgengilegt og braut í bága við bandarísk lög um aðgengi. Síðan hefur Microsoft átt gott samstarf við ýmis fyrirtæki sem framleiða hugbúnað fyrir blinda og aðgengi er haft í hávegum hjá fyrirtækinu. Þar starfar reyndar fatlað fólk og prófar ýmislegt sem fyrirtækið hefur á prjónunum.

Ég get hins vegar ekki borið Realplayer vel söguna. Hugbúnaðurinn virðist vera aðgangsharður og frekur. Þótt hann henti sumum hentar hann augsýnilega ekki mér vegna allra aukaverkananna sem hann hefur í för með sér. Einhvern tíma í upphafi ferils míns sem framkvæmdastjóri Öryrkjabandalagsins var Realplayer settur upp á vélinni minni. Hann olli þá ýmsum hremmingum og losaði ég mig við hann. Nú hefur hugbúnaðurinn verið gerður brottrækur hérna heima.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband