Nokkur orð um aðgengi að vefnum

Mér til mikillar gleði hefur verið þó nokkur umferð um síðuna í dag. Vegna athugasemda við síðustu grein skal örlítil grein gerð fyrir aðgengi:

Aðgengi að vefnum byggir á því að sem flestir, helst allir, geti notað vefinn. Hann þarf því að vera aðgengilegur ýmsum vefskoðurum. Vefskoðararnir þurfa á hinn bóginn að vera aðgengilegir einstaklingum af öllum gerðum, hvort sem þeir eru vel sjáandi, sjóndaprir, blindir, lesblindir, heyrnarlausir, hreyfihamlaðir eða þroskaheftir.

Fyrirtækið Sjá ehf hefur tekið saman ítarlegan gátlista um aðgengi og var hann gerður eftir ítarlegar prófanir með nokkrum einstaklingum. Varðandi blinda og sjónskerta skal eftirfarandi haft í huga:

Letur þarf að vera auðlæsilegt og forðast ber fjölbreytilegar leturtegundir.
Allar krækjur verða að vera með svokölluðum alt-texta sem lýsir krækjunni. Hið sama á við um myndir. Ekki er nóg að segja smellið hér heldur verður heiti krækjunnar að koma fram.
Ganga verður svo frá öllum krækum og útfyllingarreitum að hægt sé að ferðast á milli þeirra með dálkalyklinum eða bilslánni.

Heyrnarlausu og þroskaheftu fólki koma að gagni stuttir og hnitmiðaðir textar og hið sama á við um lesblinda. Æskilegt væri að mikið notaðar síður byðu upp á lesinn texta handa þeim sem eiga í erfiðleikum með lestur og hafa ekki yfir að ráða skjálesurum með talgervli. Þá má einnig benda á að auðvelt er að smíða táknmálsviðmót á heimasíður og getur Félag heyrnarlausra væntanlega gefið upplýsingar um það.

Nýjasta heimasíðan, sem undirritaður lagði reyndar grunninn af áður hann var rekinn úr starfi, er www.obi.is, en þar á að hafa verið hugsað fyrir flestum hlutum.

Ein saga um aðgengi að vefnum:

fyrir nokkrum árum þurfti ég að fara með erlenda gesti á veitingastað. Ákvað ég að velja Sjávarkjallarann og hringdi þangað til þess að forðast um aðgengi fyrir fólk í hjólastól. Var mér sagt að það ætti að vera í allsæmilegu lagi. Ég spurði hvað yrði í matinn og var mér bent á vefinn. Þegar ég skoðaði hann var einungis mynd af matseðlinum. Ég fór því á heimasíðu Hótels Holts. Þar gat ég lesið matseðilinn og auðvitað fór hópurinn þangað.

Samkvæmt rannsóknum Erópusambandsins geta um 15% almennings ekki nýtt sér ýmsar tækninýjungar vegna þess að ekki er hugsað um aðgengi. Fleiri og fleiri átta sig nú á því að hér er um markað að ræða og Íslendingar hafa verið til fyrirmyndar að undanförnu hvað þessi mál varðar. Enn eru þó nokkrar heimasíður opinberra aðila og fjölmargar einkasíður sem eru ekki að öllu leyti aðgengilegar öllum.

Kjörorðið er aðgengi fyrir alla en ekki suma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinn E. Sigurðarson

Þetta eru mjög góðar útskýringar, og við hjá mbl.is eigum eftir að fara betur í gegnum allan blogg vefinn til að tryggja betra aðgengi.

Steinn E. Sigurðarson, 21.4.2006 kl. 21:31

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband