Yfirhilmingar fjölmiðla

Allir eru nú gagnrýndir á Íslandi og sumir reyna að svara fyrir sig.

Á borgarafundi í gær voru fjölmiðlar harðlega gagnrýndir. Því var haldið fram að þeir hefðu ekki þorað að segja frá því hver raunveruleikinn væri í íslensku viðskiptalífi. Fjölmiðlafræðingur kenndi m.a. um að sérþekkingu skorti á fjölmiðlunum.

Vandinn hefur verið margvíslegur. Sumarið 2007 var blaðamönnum Morgunblaðsins greint frá því að blikur væru á lofti í Bandaríkjunum og búast mætti við því að sviptingar þar á bæ leiddu til vandræða hér innanlands enda væru íslensku bankarnir mjög skuldsettir. Morgunblaðið greindi síðan frá ótíðindunum þegar þau skullu á vestan hafs.

Í sumar var ákveðið að rita um aðsteðjandi vanda vegna upplýsinga sem þá lágu fyrir. Sumir viðmælenda tóku skýrt til orða um ástandið. Þegar átti að birta samtölin vildu viðmælendur "ekki bera ábyrgð á að tala niður gengið" og sumir töldu reyndar að bönkunum tækist að bjarga sér úr aðsteðjandi gjaldeyrisvandræðum. Allir viðmælendur undirritaðs gagnrýndu þó ríkisstjórn og seðlabanka fyrir að hafa ekki hugað að því að efla gjaldeyrisvarasjóðinn og ýmislegt fleira var dregið fram.

Ragnar Önundarson skrifaði fjölda greina í Morgunblaðið og var eins og hrópandinn í eyðimörkinni. Þá benti Spegill Ríkisútvarpsins hvað eftir annað á þá spilaborg sem væri verið að byggja upp innan fjármálakerfisins og það gerði einnig Hjálmar Sveinsson í Krossgötum o.fl. Spegillinn var sakaður um svartagallsraus og þegar birtar voru fréttir um álit erlendra sérfræðinga á íslenska vandanum ypptu menn öxlum og sögðu að þetta bæri vott um öfund. Jafnvel í septembyrjun sögðu reyndir lögmenn og viðskiptafræðingar, sem betur hefðu mátt vita, að það væri nú meira hvað íslensku bankarnir stæðu sig vel á meðan hver stórbankinn færi á hausinn í Bandaríkjunum og víðar.

Sannleikurinn er sá að mikilvægum upplýsingum var haldið frá fjölmiðlum. Hefði ekki t.d. verið eðlilegt að fjölmiðlar hefðu verið boðaðir á fundinn sem haldinn var 11. júlí í sumar þar sem kynntar voru horfur í íslenskum fjármálum sem breskir sérfræðingar gerðu?

Hins vegar virðast stjórnvöld hafa vitað mætavel að hverju fór og engin tilraun var gerð til þess að breyta um stefnu. Það er mergurinn málsins - ráðamenn tóku þátt í blekkingaleik bankanna og slógu þannig ryki í augu almennings.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Dóra

Kærleikskús til þín  frá Esbjerg Dóra

Dóra, 18.11.2008 kl. 08:28

2 Smámynd: Kristján G. Arngrímsson

Vissulega er mikið til í þessu. En þú veist líka að fjölmiðlar töluðu um útrásarvíkingana á sömu nótum og talað var um handboltahetjurnar. Manstu eftir því þegar Mogginn bjó til stórt og myndskreytt halelújakvæði um Björgólf í London?

Á fjölmiðlunum ríkti einfaldlega sama múgsefjunin og allstaðar í landinu. Fólk hreinlega þorði ekki að vera með uppsteyt, það er nú hinn dapurlegi sannleikur málsins.

Við vissum að ef við ekki sögðum já og amen og tókum þátt í kórstarfinu jókst hættan á að stjórnendum færi að finnast við "óþægileg" og þar með jókst hættan á atvinnumissi, sem var jú yfirvofandi á Mogga sem öðrum fjölmiðlum.

Þetta var eins og á unglingafylleríi: Það urðu allir að drekka með, annars voru þeir óþolandi. Og hver vill vera álitinn óþolandi?

Kristján G. Arngrímsson, 18.11.2008 kl. 10:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband