Heigulsháttur seðlabankastjórans

Davíð Oddsson var samur við sig í morgun. Hann rifjaði upp tilvitnanir í sjálfan sig og leiddi að líkum að hann hefði haft rétt fyrir sér. Það var ekki að öllu leyti rangt. Hins vegar brást honum bogalistin þegar hann ræddi um úrræði Seðlabankans. Jafnvel undirritaður, sem er hvorki hagfræðingur né lögfræðingur, en er með próf í sagnfræði, fjölmiðlafræði og íslenskum fræðum, skynjaði að eitt orð vantaði í ræðuna, bindiskyldu Seðlabankans. Þrátt fyrir aðvaranir sínar við einhverja ráðherra Sjálfstæðisflokksins fór hann mikinn í erlendum fjölmiðli í sumar og hélt uppi vörnum fyrir íslenska bankakerfið. Með öðrum orðum tók hann þátt í blekkingaleiknum svo að einhverjum bankaráðsmönnum Seðlabankans varð um og ó.

Eitt sinn rifjaði fyrrum blaðamaður upp samskipti sín við Davíð Oddsson. Sagði hann m.a. að Davíð þyrði sjaldan að svara blaðamönnum nema hann hefði fengið vandlega undirbúnar spurningar áður. Aldrei hefði hann þorað í rökræður við aðra en sjálfa sig. Í morgun gaf hann ekki kost á viðtali við blaðamenn. Jafnan samur við sig og sjálfum sér samkvæmur!

Davíð ræddi m.a. um þá sem hefðu haldið ró sinni. Ýmsir hljóta að halda aftur af sér til þess að birta ekki sögur um samskipti sín við Davíð. Ýmsar eru ágætar þvíað margt gerði hann gott. Hann studdi þróun íslensks talgervils þegar hann var borgarstjóri. Annað var verra.

Einhvern tíma hlýtur einhver að rjúfa þögnina um afskipti Davíðs af málefnum Öryrkjabandalags Íslands á árunum 1998-2005 sem enduðu víst með því að hann sá um að láta planta réttum manni á réttan stað á réttum tíma eins og haft er eftir einum vini hans og samstarfsráðherra.

Ræða Davíðs í morgun sýndi svo að ekki varð um villst að hann ætlar ekki að taka sönsum heldur þrjóskast áfram.

Verði honum að góðu. Vonandi þekkir hann sinn vitjunartíma.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Bull, vitleysa og kjaftæði.

Óskar (IP-tala skráð) 19.11.2008 kl. 11:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband