Tölvuóhapp á Starfatorgi

Í gær var mér bent á starf sem væri auglýst á Starfatorgi og fæli m.a. í sér útgáfu bóka með blindraletri. Fór ég inn á torgið og fann ekki greinda auglýsingu með hefðbundnum aðferðum. Notaði ég því leitarmöguleika skjálesarans til þess að fletta upp á orðinu "blind".

Fannst þá auglýsingin og kom í ljós að umsóknarfrestur var til 1. desember. Gefið var upp netfang sem skila mátti umsóknum til og opnaði ég það. Samdi ég síðan umsóknina og lét ferilskrá fylgja með.

Innan skamms barst mér bréf þar sem mér var tjáð að verklagsreglur ríkisins bönnuðu að tekið væri við umsóknum eftir að frestur væri liðinn. Svaraði ég bréfinu og bað um að fá að njóta vafans. Sagðist ég hafa farið inn á Starfatorgið m.a. mánudaginn 24. fyrra mánaðar og aftur þann 30. Hefði ég aldrei orðið var við auglýsinguna. Hlyti það að stafa af galla í heimasíðunni eða í skjálesaranum sem hugsanlega skautaði yfir einhver svæði.

Nú hefur mér borist svar þar sem ég verð látinn njóta vafans takist mér að sanna að um galla á heimasíðunni hafi verið að ræða. Þá eru góð ráð dýr því að auglýsingin hefur verið fjarlægð.

Ég hef svarað þessu bréfi og boðist til að láta rannsaka tölvu mína ef það þjónar einhverjum tilgangi. Einnig hef ég bent á að stjórnvöldum beri að sanna að aðgengi að Starfatorgi sé óaðfinnanlegt. Vonandi verður þetta mál leyst með sanngirni. Það sýnir þó í hnotskurn hve mikilvægt er að aðgengi að upplýsingum verði tryggt með lögum.

Ég hlýt að vera farinn að eldast því að svona þras og barátta dregur næstum úr mér allan mátt.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband