Heilbrigðisráðherrann og reynslan

Eftir að hafa hlustað á viðtal Morgunvaktarinnar við Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur, stjórnsýslufræðing, þar sem hún kynnti ákveðin líkindi með heilbrigðis- og fjármálakerfinu, varð mér hugsað til þess sem gerðist þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Alþýðuflokks tók við árið 1991. Þá var hafinn mikill niðurskurður í heilbrigðiskerfinu og fátt látið ósnert.

Ekkert samráð var haft við samtök fatlaðra og fór auðvitað svo að í harða brýnu sló með Öryrkjabandalagi Íslands og heilbrigðisráðherra. Þau mál leystust þó og ágætt samband ríkti við ráðherrann á meðan hann sat á þeim stóli.

Þegar séð varð hvert stefndi og að þátttaka sjúklinga í lyfjakostnaði yrði aukin náðist samkomulag um að skipuð yrði nefnd til þess að fara ofan í saumana á ráðstöfunum þeim sem ráðherra hafði gert. Tókst að fá fram umtalsverða leiðréttingu.

Þegar teknar eru ákvarðanir um hagræðingu og sparnað í heilbrigðiskerfinu þarf að vanda vel til verka. Huga þarf m.a. að áhrifum aukins kostnaðar á vissa hópa sjúklinga. Árið 1991 var geðfatlað fólk í sérstakri hættu, en greiðsluþátttaka þess var aukin að mun frá því sem verið hafði.

Ég hef ekki heyrt að neitt samráð hafi verið milli heilbrigðisráðuneytisins og samtaka fatlaðra og aldraðra vegna þeirra ákvarðana sem teknar voru. Þó kann það að vera rangt enda frétti ég fátt úr þeim ranni. Sé svo að ráðherra vaði fram án samráðs er verr af stað farið en heima setið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband