Turninn og Túnahverfið

Á mbl.is kemur fram í dag að Hjálmar Sveinsson, útvarpsmaður, vinni nú að bók um skipulagsslysið í Túnunum í Reykjavík þar sem byggingaverktökum tókst að telja borgaryfirvöld á að breyta gildandi deiluskipulagi og samþykkja turna sem gerbreyttu ásýnd svæðisins. Voru þeir fyrst og fremst hugsaðir fyrir fjármálafyrirtæki og þarna átti að vera torg samkvæmd ítalskri fyrirmynd þar sem sumur eru hlý.

Hjálmar fjallaði um mál þetta í þætti sínum, Krossgötum, sem er á dagskrá rásar 1. Hann ræddi þar við íbúa Túnahverfisins og rakti hvernig reynt var að flæma þá úr húsum sínum með því að kaupa upp húseignir á yfirverði og láta þær grotna niður. Einnig afhjúpaði hann hvernig fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn og reyndar Framsóknarflokksins líka, svikust aftan að íbúunum. Þáverandi skipulagsnefndarformaður fór undan Hjálmari í flæmingi og sagði ekki ætíð satt og rétt frá.

Turninn, sem nú er hálfkaraður, er glöggt dæmi um það hvernig byggingaferktakar ráku skipulagsyfirvöld á undan sér með því að beita pólitískum samböndum og þrýstingi. Á Seltjarnarnesi var þetta reynt en sem betur fer var ásælni þeirra hrundið.

Hjálmar Sveinsson á mikinn heiður skilinn fyrir rannsóknir sínar á þessu máli og Ríkisútvarpið fyrir að veita honum aðstöðu til þess að fræða almenning.

Sagt er að Eikt, sem á turninn og leigir Reykjavíkurborg húsnæði með gengistengdri leigu, lifi nú á borginni. Væri ég ekki jafngóðlyndur og raun ber vitni héldi ég því hiklaust fram að Skrattinn sæi um sína.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband