Gengishrapið, strætó o.fl.

Í gærkvöld hringdi til mín kunningi minn og falaðist eftir upplýsingum um viðskiptaumhverfið í Kína. Vísaði ég honum á Geir Sigurðsson, háskólakennara á Akureyri sem er mun færari en ég að veita slíkar upplýsingar. ´Þessi ágæti kunningi minn stundar nú nám við Háskólann í Reykjavík og barst talið að gengissiginu undanfarið eins og svo oft áður. Ræddum við m.a. þá staðreynd að talsvert var keypt af skuldabréfum í íslenskum krónum enda eru bankavextir hærri hér en á flestum byggðum bólum á jörðinni. Er því ekki nema eðlilegt að erlendir fjárfestar horfi hingað til lands þegar ávaxta skal fé sitt. Þetta hækkar auðvitað gengi krónunnar. En þegar atlagan hófst að gjaldmiðlinum varð fátt um varnir enda þjóðin fámenn og markaðurinn lítill sem getur varið íslensku krónuna. Verður enda fátt um varnir þegar saman fara ófyrirleitni og rógburður.

Ýmsir bjuggust við því að vöruverð lækkaði meira við þessa gengishækkun en raunin varð. Hins vegar búast nú flestir við því að vöruverðið hækki nú í kjölfar gengissigsins sem er í raun ekkert annað en gengisfelling, einungis með formerkum frjálsræðis en ekki handafls stjórnvalda eins og í gamla daga. Nú er það handafl hinna sterku sem ræður og stjórnvöld standa máttvana hjá.

Í dag vann ég að samsetningu hljóðmyndar af máltöku barns og þurfti að leita mér fanga í viðamiklu hljóðritasafni heimilisins. Er nú sennilega komin einhver mynd á þetta hjá mér. Eftir hádegi brá ég mér af bæ og hélt með strætisvagni upp í Hamrahlíð 17. Ég hef ekki farið einn í strætó svo að árum skiptir. Nú er nýtt leiðarkerfi komið til skjalanna og lék mér forvitni á að vita hvernig það reyndist. Það er skemmst frá því að segja að vagninn var aðeins tveimur mínútum of seinn og mér gekk áfallalaust að komast upp í Hamrahlíð. Ég bað bifreiðastjórann að láta mig vita þegar við kæmum á vettvang og gerði hann þeim viðvart, sem tók við á Hlemmi.

Á meðan strætisvagninn bar mig áleiðis varð mér enn og aftur hugsað til þess að fyrir mörgum áratugum kölluðu strætisvagnastjórar upp biðstöðvar. Nú er það ekki lengur gert og veldur það mér og fleirum vissu óöryggi. Hvenær skyldi líða að því að kallbúnaður einhvers konar verði settur í bílana? Neyðist maður kannski til þess að fá sér talandi GPS-tæki, stimpla inn í það leiðirnar sem maður fer með strætó og láta síðan tækið um að segja frá því hvað leiðinni líði?

Strætisvagnar eru þægileg og skemmtileg farartæki. Nú geta menn skoðað hentugustu vagnana með ráðgjafanum á heimasíðu Straeto áður en lagt er af stað að heiman. Ráðgjafinn er þó ekki óskeikull en býsna notadrjúgur. Á Strætu heiður skilinn fyrir þessa góðu viðbót við þjónustuna. En miklu væri nú skemmtilegra að ferðast með strætisvagni ef farþegar væru fleiri og samræður fjörugar eins og sundum varð hér á árum áður.

Það kætti mitt unga hjarta í dag, að golan var hlý þegar ég kom út. Skyldi vera komið vor?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hjalti hérna í Blindrafélaginu. Ég komst að því um daginn að sumir strætisvagnar eru búnir kallkerfi svo það ætti að vera lítið mál fyrir þá að tilkynna biðstöðvarnar

J. Hjalti (IP-tala skráð) 25.4.2006 kl. 22:27

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband