Bakkatjörn og gestafuglar

Í dag sendi ég hljóðmynd upp í útvarp og fór síðan út. Veðrið var hlýrra en ég hélt og er ég nú sannfærður um að komið sé vor.

Ég hélt sem leið liggur út á Suðurströnd og meðfram henni þar til ég komst niður að sjó. Ég var með víðómshljóðnema í farteskinu, góð heyrnartól og Nagra-hljóðritunartæki. Nam ég staðar öðru hverju til þess að hlusta eftir fuglum og náði tveimur, prýðilegum hljóðritum. Meðal annars held ég að mér hafi tekist að hljóðrita margæs fremur en helsingja, en þessir fuglar koma við hér á landi á leið sinni til Grænlands. Bakkatjörnin og svæðið þar um kring eru áningarstaðir þeirra og ber því margt fyrir augu og eyru þegar gengið er meðfram Bakkatjörninni. Ég þarf að gera út annan leiðangur og hafa þá með mér tvo, sjálfstæða hljóðnema til þess að fá minna suð. Einhvern veginn verða náttúruhljóðahljóðritanir hálfgerð ástríða á sama hátt og sumir eru ástríðuljósmyndarar fugla.

Ég hef tekið mér göngu nokkrum sinnum um Seltjarnarnes í vetur því að ekkert dreifir betur huganum en gönguferðir þegar tilgangsleysið virðist yfirþyrmandi. fyrir nokkru var ég á ferð og heyrðist þá sem hundur gelti skammt frá mér. Eitthvað var þetta hljóð þó ankannalegt. Ég áttaði mig loksins á því að gassinn á Bakkatjörn var þarna á ferð í vígaham. Þetta er kosturinn við að hjóla og ganga. Maður nýtur náttúrunnar sem maður gerir ekki þegar þeyst er um í yfirbyggðum, vélknúnum bifreiðum. Sem dæmi get ég nefnt að þegar við hjónin hjóluðum norður til Akureyrar fyrir 11 árum heyrðum við tófu gagga á Miðfjarðarhálsi og komumst að því að stelkurinn er þjóðvegafugl á Íslandi. Einnig urðum við vitni að því þegar lóan, þessi saklausi yndisfugl, sem öllum þykir vænt um, hrakti sér minni fugl af óðali sínu. Á leiðinni yfir Breiðamerkursand sáum við skúm veitast að tveimur hröfnum sem flýðu í ofboði. Kvað við hræðslukrúnk. Í þeirri hjólreið var athyglisvert að hjóla meðfram Vatnajökli og finna jökulkuldann hvert sinn sem við hjóluðum ramhjá einhverju skarðinu eða skriðjökli.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband