Snara - aðgengilegt vefbókasafn

Þessa viku hefur Forlagið opnað vefinn snara.is notendum að kostnaðarlausu, en þar eru ýmis uppflettirit s.s. orðabækur, Nöfn Íslendinga, matreiðslubækur og orðstöðulyklar. Mér sýnist sem verð heimilisáskriftar samsvari því að tæplega eitt uppflettirit yrði keypt á hverju ári.

Sameiginlegt þessum ritum virðist að fremur auðvelt er að fletta upp í þeim. Ókosturinn er e.t.v. sá að tölvunotandi blaðar ekki í þeim eins og í prentuðu uppsláttarriti. En kostirnir eru þó augljósir þeim sem vinna mest á tölvur.

Hér er um merkilegt og þarft framtak að ræða. Fyrir tæpum tveimur áratugum ræddi ég við útgefendur alfræðiorðabóka um nauðsyn þess að koma þeim á tölvutækt snið. Þá var tæknin vart fyrir hendi og þegar hún varð loksins aðgengileg töldu útgefendur vart markað fyrir slíka útgáfu. Þó tókst okkur hjá Blindrabókasafni Íslands að fá barnaorðabók og Hugtök og heiti í bókmenntum á tölvutæku sniði. Var það m.a. að þakka ágætu samstarfi við Mál og menningu og fyrirgreiðslu ritstjórans, dr Jakobs Benediktssonar sem var mikill áhugamaður um skráningu gagna í tölvur.

Ég hvet lesendur þessarar síðu til þess að kynna sér kosti vefbókasafns Snörunnar og njóta þess sem er þar á borð borið. Flestir aðgengisstaðlar eru virtir svo að notendur skjálesara geta einnig nýtt sér vefbókasafnið.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband