Gatan mín, sumarraddir og fleira gott

Sumardagskrá ríkisútvarpsins er nú smám saman að taka á sig mót. Henni fylgdi m.a. að vinsælasti þátturinn á dagskrá þess, Orð skulu standa, var látinn víkja eins og undanfarin sumur og er sagt að óvissar ríki um framtíð þáttarins.

Um þetta leyti ber óvenju mikið á endurteknu efni í ríkisútvarpinu. Í útvarpsperlum á fimmtudagskvöldum er gamalt efni á boðstólnum, sumt hvert hreinasta menningardýrmæti. Þá eru á laugardagsmorgnum fluttir þættir Jökuls Jakobssonar frá árinu 1971, "Gatan mín". Þessir þættir vöktu verðskuldaða athygli á sínum tíma og gildi þeirra hefur lítið minnkað síðan.

Á sunnudagsmorgnum er síðan Jónas Jónasson með þátt sinn "Sumarraddir". Þar moðar hann úr viðtölum sem hann hefur átt á sinni löngu ævi sem útvarpsmaður, en hann hefur unnið við Ríkisútvarpið í tæpa 6 áratugi. Það fer ekki hjá því að maður með jafnlangan starfsaldur eigi í fórum sínum marga perluna og svo reynist þegar hlýtt er á sumarraddir Jónasar. Þessir þættir báðir eru svo endurteknir á þriðjudags- og miðvikudagskvöldum.

Safn Ríkisútvarpsins er einhver merkasta heimild um íslenskt þjóðlíf frá því að ríkisútvarpið tók til starfa í desember 1930. Það er því vel að stofnunin skuli miðla efni þess til hlustenda. Hins vegar ber minna á frjórri sköpun í dagskrárgerð en á árum áður.

Þó ber að nefna eina undantekningu sem vel hefur tekist, Leynifélagið sem er á Rás 1 flest kvöld vikunnar kl. 8 og ætlað er börnum. Það kann að torvelda hlustun barna að stundum er þátturinn látinn fara á flakk og hentar það illa því að flest börn vilja geta gengið að sínum föstu liðum á tilteknum stað og stund. En þátturinn er jafnskemmtilegur fyrir það og stjórnendurnir afar hugmyndaríkir.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband