Er Öryrkjabandalagið í hættu vegna ásælni framkvæmdastjóra aðildarfélaganna?

Um þetta leyti halda ýmis aðildarfélög Öryrkjabandalags Íslands aðalfundi sína. Í gær barst mér til eyrna eftir áreiðanlegum heimildum að eitt þessara félaga hefði í hyggju að skipta um fulltrúa í aðalstjórn bandalagsins. Sá sem hefur verið fulltrúi þess, er fatlaður. Mér var tjáð að í bígerð væri að framkvæmdastjóri félagsins, ófatlaður maður, tæki sæti fulltrúans í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins.

Það hefur ætíð verið nokkur ásókn í að skipa framkvæmdastjóra aðildarfélaga bandalagsins í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins. Yfirleitt eru framkvæmdastjórarnir sómamenn. Fæstir þeirra eru hins vegar fatlaðir og margir eiga þá hagsmuni eina að vera framkvæmdastjórar. Öryrkjabandalag Íslands á aðild að tveimur alþjóðasamtökum, European Disabilityforum og Disabled People%u2019s International þar sem gert er að skilyrði að meirihluti stjórnar sé skipaður fötluðu fólki. Vegna þessa misskilnings og væntanlega einhverrar ásælni sumra framkvæmdastjóra getur það ástand skapast að Öryrkjabandalagi Íslands verði meinuð full aðild að þessum samtökum.

Fáheyrt er að karlmenn séu formenn eða framkvæmdastjórar kvenfélaga. Engum karlmanni dettur í hug að troða sér áfram á slíkum vettvangi. En ófötluðum körlum sem konum virðist hugnast að nota Öryrkjabandalagið sem stökkpall til áhrifa og sumt fatlað fólk skilur ekki nauðsyn þess að það berjist sjálft fyrir málum sínum. Ófatlað fólk getur aldrei komið í stað fatlaðs fólks. Ófatlaðir geta hins vegar verið bandamenn fatlaðra.

Öryrkjabandalag Íslands hefur verið a.m.k. öðru hverju virkasta baráttuafl sem fatlaðir hafa átt hér á landi. Mér er engin launung á því sem fyrrum formanni bandalagsins og framkvæmdastjóra þess, að ég hafði áhyggjur af þeirri þróun að framkvæmdastjórar aðildarfélaganna næðu æ meiri völdum í stjórn þess. Ég tel ástæðu til að vara við þessari þróun og bið þá framkvæmdastjóra, sem hugsa sér að nota Öryrkjabandalagið sem stökkpall til frekari áhrifa, að íhuga vandlega sinn gang áður en þeir koma sér inn í aðalstjórn þess. Einnig bið ég almenna félagsmenn aðildarfélaganna að íhuga vandlega sinn gang áður en fólk sem á enga annarra hagsmuna að gæta en að vera starfsmenn þeirra, verði kjörið til setu í aðalstjórn Öryrkjabandalagsins. Það hefur nú þegar valdið nógum skaða.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband