"Innbrot var gert í raftækjaverslun á Selfossi"

Svona hefst frétt á mbl.is í dag. Ætli innbrotsþjófar hætti ekki brátt að brjótast inn heldur geri innbrot í staðinn? Hvað verður þá gifting kölluð? Ætli prestar geri giftingu á fólki í framtíðinni eða læknar geri lækningu og hjúkrunarfræðingar hjúkri ekki heldur geri hjúkrun?

Íslenska og sæmilegt málfar láta nú undan síga í fjölmiðlum sem aldrei fyrr. Síðdegis á laugardögum er þáttur á rás eitt þar sem fjallað er um gæði náttúrunnar. Umsónarmenn eru vægast sagt illa máli farnir og kunna ekki að beygja algeng nafnorð eins og dóttir sem virðist eins í öllum föllum eintölu þegar þeir eiga í hlut.

Þá hverfa önnur orð nú sem óðast úr málinu. Nú segir fátt ungt fólk "yfirleitt" heldur er allt "beisikallí". Menn undirbúa fátt, vinna að einhverju, aðhafast eitthvað eða sýsla um hlutina heldur græjast menn. Þá eru ýmis svör á undanhaldið og vitleysan ókei tröllríður málfari fólks. Ja hérna, þú segir ekki, er það, jæja, hvað segirðu, nú, Ég trúi þessu varla, heyrist vart. Allt er ókei.

Engan skal undra að svo fari þegar íslenska hljómar ekki lengur nema að litlu leyti í eftirsóttum fjölmiðlum eins og sjónvarpi. Ríkisútvarp allra landsmanna ætti þó að ganga á undan með góðu fordæmi og krefjast þess af dagskrárgerðarmönnum sínum að þeir kunni einföldustu reglur íslenskrar málfræði og gæta þess um leið að íslensku sé sýnd sú virðing sem henni ber í jafnvinsælu efni og auglýsingum. Nú er allt orðið taxfrí þegar um er að ræða verðlækkun sem nemur álagningu virðisaukaskatts og fleiri dæmi mætti nefna um sóðaskap sem er látinn viðgangast í auglýsingum fjölmiðla.

Þótt undirritaður sé enginn málsnillingur reynir hann að vanda mál sitt sem mest hann má. Sá sem nær ekki tökum á móðurmáli sínu veldur sjaldnast öðrum tungumálum svo að vel sé.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Landfari

Mikið er ég sammála þér. Mér finnst að það verði að vera hægt að gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra sem skrifa fréttir í opinbera miðla.

Þegar kemur að því að fréttamenn fara að "gera fréttir"  fer málið að vandast verulega. Þá veit maður ekkert hvort þeir eru að segja frá því sem gerðist eða hvort um er að ræða hluti eins og hjá fréttamanni Stöðvar 2 í mótmælum bílstjóranna sem frægt varð.

Eins finnst mér að alþingismenn megi stundum vanda sig betur með íslenskuna.

Landfari, 16.7.2009 kl. 16:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband