Þjóðaratkvæðagreiðslur um EES og lýðræðisást sjálfstæðismanna

Í dag fóru sjálfstæðismenn mikinn á Alþingi þegar greidd voru atkvæði um þá tillögu þeirra að þjóðin skyldi ákveða hvort gengið yrði til viðræðna við Evrópusambandið um aðild Íslands.

Við afgreiðslu seinni tilögu þeirra brigsluðu þeir stjórnarsinnum um andstyggð á lýðræðinu þar sem þeir væru á móti þjóðaratkvæðagreiðslum og neituðu að skjóta málum til þjóðarinnar. Vitnað var í ný vinnubrögð sem heitið hefði verið eftir bankahrunið.

Sjálfstæðismenn þæfðu tillögur um þjóðaratkvæðagreiðslur síðastliðinn vetur svo að með ólíkindum var og virtist leikurinn helst til þess gerður að koma í veg fyrir að ríkisstjórnin gæti framfylgt áætlunum sínum og hindra í leiðinni að sótt yrði um aðild að Evrópusambandinu. Stjórnarliðar vísuðu hins vegar til þess á Alþingi í dag að stjórnarskrá lýðveldisins gerði ráð fyrir að efnt yrði til slíkrar atkvæðagreiðslu enda væri það stjórnarskrárbundið.

Eftir stutta athugun á stjórnarskrá lýðveldisins finn ég einungis ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu sem tengjast störfum forsetans, sjá 11. og 12. gr. stjórnarskrárinnar. Ákvæðið sem stjórnarsinnar vitna til er að finna í 21. gr. og hljóðar svo:

Forseti lýðveldisins gerir samninga við önnur ríki. Þó getur hann enga slíka samninga gert, ef þeir hafa í sér fólgið afsal eða kvaðir á landi eða landhelgi eða ef þeir horfa til breytinga á stjórnarhögum ríkisins, nema samþykki Alþingis komi til.

Þarna er ekki minnst einu orði á samþykki þjóðarinnar og þetta eru býsna veik ákvæði. Þó hef ég fáa heyrt halda því fram að Alþingi gæti samþykkt samninginn um EES án þess að hann yrði borinn undir þjóðina til endanlegrar staðfestingar eða höfnunar. Eftir á að hyggja var furðulegt að enginn þingmaður skyldi minnast á þetta í dag. Ef til vill hefur það borið á góma í umræðu um tillögu utanríkismálanefndar.

Lýhðræðisást formanns og varaformanns Sjálfstæðisflokksins í dag og undanfarna daga er sögð vera leikflétta þeirra Bjarna Benediktssonar og Illuga Gunnarssonar til þess að róa Evrópusambandsandstæðingana í flokknum. Hvort sem menn aðhyllast aðild að Evrópusambandinu verður því ekki neitað að sjálfstæðismenn unnu mikið óþurftaverk í vetur þegar þeir komu í veg fyrir eðlilegar breytingar á stjórnarskránni sem stefndu m.a. að almennari þátttöku almennings í ákvörðunum sem snerta hag þjóðarinnar. Skyldi þjóðin hafa gleymt þessu framferði þingmanna Sjálfstæðisflokksins?


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband